154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[16:19]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að þetta er skýrt og eðlilega notar hæstv. ráðherra sterkt orðalag þegar hún gagnrýnir hrottalegar, hrikalegar hryðjuverkaárásir Hamas. En ég saknaði þess hreinlega að ráðherra hafi ekki kjark til þess að segja það beinum orðum að við fordæmum líka brot á alþjóðalögum.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra. Nú liggja um 35.000 manns í valnum og allir innviðir Gaza eru hreinlega í rúst. Finnst ráðherra þetta styðja við sjálfbærni palestínsku þjóðarinnar til framtíðar, sem þó hlýtur að vera forsenda varanlegrar lausnar og tveggja ríkja lausnarinnar sem Ísland styður? Og hvernig hyggst ráðherra koma sterkari skilaboðum til umheimsins á framfæri um að þetta sé ekki leiðin til að tryggja tveggja ríkja lausn?