154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[16:25]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fæðingarorlofsdómurinn sem féll í Hæstarétti fyrir nokkrum vikum kallar ekki á það að bókun 35 sé lögfest, hann gerir það ekki. Dómstóllinn segir að það sé hægt að leita skaðabóta sé brotið á rétti ef íslensk lög eru ekki í samræmi við EES-samninginn. Dómstóllinn telur líka upp lögin þar sem er framsal á valdi; jú, það er í loftferðum, alþjóðaflugi, þá eigum við fylgja alþjóðareglum, í alþjóðlegu bókhaldi eigum við að fylgja alþjóðlegum bókhaldsreglum og það eru tvenn önnur lög sem vitnað er til. Þetta eru sérafmörkuð lög þar sem er tekið fram að alþjóðareglur gangi framar íslenskum lögum, vegna þess að þú getur ekki flogið erlendis án þess að fylgja alþjóðlegum flugreglum. Þú getur ekki fylgt alþjóðlegu bókhaldi nema fylgja alþjóðlegum bókhaldsreglum. Það er sérafmarkað og dómstóllinn segir ekki að við eigum að lögfesta bókun 35. Það er bara rangtúlkun á dómnum eins og frekast er unnt. Ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að lesa þann dóm skilmerkilega. Það er hægt að leita skaðabóta, Frankovich-dómurinn er þar undir og dómur í máli Erlu Maríu Sveinbjörnsdóttur sem varðar Ísland. (Forseti hringir.) Þetta mál var leyst fyrir 30 árum og með því að fara núna og rífa upp þetta mál (Forseti hringir.) er verið að segja að þeir sem samþykktu EES-samninginn á sínum tíma hafi haft rangt fyrir sér. Það var pólitískt samkomulag þá (Forseti hringir.) og það að vera vekja upp gamla drauga (Forseti hringir.) er ekki rétt, svo það liggi algjörlega fyrir.