154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[16:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kostur, stundum ókostur, að vera aftarlega í röðinni. En ég vil undirstrika það sem kom hér fram varðandi Spán og sendiráð og bið hæstv. ráðherra að halda sig og ráðuneytinu við efnið. Ég held að það séu ríkir hagsmunir Íslendinga að það skref verði tekið.

Ég vil hins vegar aðeins beina sjónum mínum í fyrra andsvari mínu að bókun 35 þar sem er alveg ljóst, bæði af fræðimönnum og núna mjög skýrri og mjög ákveðinni niðurstöðu Hæstaréttar Íslands um að forgangsreglan hafi ekki verið innleidd réttilega í íslenskan rétt. Ég greindi áherslumun á milli núverandi ráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra sem var í skamman tíma varðandi það hvernig ætti að klára þetta mál. Ég vil einfaldlega spyrja: Má ekki búast örugglega við því að ráðherra láti ekki hrekjast af leið heldur mæti með málið í haust? Eða vill hæstv. ráðherra kannski frekar að við í hv. utanríkismálanefnd tökum málið upp og afgreiðum það núna frá okkur? (Forseti hringir.) Ég er meira en reiðubúin til þess, enda ekki í fyrsta sinn sem Viðreisn hleypur undir bagga þegar kemur að EES-málum.