154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[16:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu svari. Þetta er alveg skýrt. Þetta mál mun koma hingað fyrir þingið og það mun a.m.k. ekki stranda á okkur í Viðreisn þegar að því kemur, enda miklir hagsmunir þjóðarinnar undir. Lífskjarasóknin sem ráðherra kom réttilega inn á alveg frá lýðveldisstofnun hefur m.a. verið út af því að við höfum tekið fullan þátt, ekki bara innan NATO heldur líka innan EFTA og síðan EES-samningsins. Þetta er mikilvægt að heyra. Ég kem inn á það í ræðu minni á eftir en ég get ekki dregið dul á það að ég hef ákveðnar áhyggjur af ysta hægrinu innan sem utan flokks utanríkisráðherra þegar kemur að þessu máli. En ég mun fara betur yfir það á eftir.

Seinni spurning mín varðar varnarstefnu fyrir Ísland. Mér hefur þótt skorta á að við höfum algjörlega skýra varnarstefnu og sérstaklega að við förum yfir okkar hagsmuni út frá vörnum og öryggi landsins, gerum þetta svipað og aðrar þjóðir hafa gert. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé reiðubúin til að fara í slíka vinnu þegar kemur að þessu verkefni, þ.e. að ramma enn betur inn varnir og öryggi landsins og gera skýrar. (Forseti hringir.) Slíkt mun m.a. koma í veg fyrir að til að mynda einhver vopnakaup komi fólki á óvart (Forseti hringir.) heldur er þingið, hið lýðræðislega kjörna vald, búið að fara yfir þessi mál.