154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[16:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur auðvitað gríðarlega margt breyst bara undanfarin tvö ár. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að hefðum við verið með varnarstefnu nú þegar þá hefðum við líklega uppfært hana og ef við værum með hana uppfærða og algerlega í takt við tímann þá væri gott að geta stuðst við það. Hins vegar höfum við verið að taka ákvarðanir þegar ákveðnar aðstæður koma upp og viljað gera það hratt. En ég leyfi mér að nefna hér að ég hef alla vega í minni tíð sem utanríkisráðherra átt í mjög góðum, rosalega góðum samskiptum við utanríkismálanefnd og traustum samskiptum, alltaf getað tekið samtöl við nefndarmenn líka um erfið mál. Það er alla vega góður grunnur til að byggja á til að skrifa út þar sem við höfum verið að gera, vinna það í pólitísku samráði, geta átt slík samtöl við utanríkismálanefnd og sömuleiðis hér í þinginu vegna þess að á þessum tímum sem við lifum erum við ekki að fara að skoppa til baka yfir á rétta braut og þurfum ekki að hafa skoðun á þessu lengur. (Forseti hringir.) Ég er algerlega sammála hv. þingmanni að það að vera með skýra sýn á hvað nákvæmlega við ætlum að gera og hvernig við ætlum að beita okkur teldi ég mjög til bóta.