154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[16:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Skýrslan og greinargerðin sömuleiðis sýna vel hvert markmiðið var og þegar maður les greinargerðina frá þessum tíma þá var markmiðið og það loforð sem var gefið að við værum að innleiða bókun 35. Síðan var einfaldlega talið það myndi duga til, það orðalag sem þar var. Svo var ekki. Það er þá bæði dómaframkvæmd og afstaða Hæstaréttar. Þessi nýi hæstaréttardómur segir einfaldlega að 3. gr. laga EES-samningsins feli ekki í sér forgangsreglu eins og bókun 35 kveður á um. Þetta er skýrt. Á þeim tíma var sagt: Við erum að innleiða bókun 35 með fullnægjandi hætti, það er það sem við erum að gera. Svo þróast ýmislegt og auðvitað gerist ýmislegt en þetta er staðan sem við erum í í dag. Óháð öllu þá tel ég einfaldlega rétt að bregðast við þessu, bregðast við þessu á okkar forsendum hér í þessum sal (Forseti hringir.) og gera það sem þarf til að standa vörð um EES-samninginn og rétta framkvæmd hans.