154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[17:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún vekur upp ákveðnar spurningar, m.a. um stjórnarsamstarfið, en líka um það hvort það sé rétt, eins og ég skildi hv. þingmann, að hann telji að Ísland hafi ekki styrkt fullveldi sitt heldur frekar veikt þegar við urðum stofnaðilar að NATO, þegar við urðum aðilar að EFTA og þegar við skrifuðum undir EES-samninginn. Er hv. þingmaður að meina það að við stöndum veikar að vígi eftir að hafa orðið aðilar að þessum alþjóðasamningum eða erum við sterkari? Ég vona að flestir viti hvert mitt álit er en mér þætti gott að vita hvort ég hafi verið að skilja hv. þingmann rétt, að fullveldi okkar sé veikara og við veikari sem þjóð eftir þessi mikilvægu skref sem voru tekin í utanríkismálum Íslands.

Þetta var fyrsta spurningin. Önnur spurning er varðandi bókun 35. Ég er að reyna að draga út, og það virðist oft vera frekar með töngum heldur en hitt, afstöðu stjórnarþingmanna. Ég er að reyna að fá það fram hvort það sé ekki örugglega samstaða um að ráðherra leggi aftur fram frumvarp sem ráðherra lagði fram núna á síðasta ári en var ekki afgreitt, hvort hv. þingmaður styðji það ekki og muni um leið stuðla að því að við fullgildum og klárum bókunina þannig að réttindi Íslendinga verði ekki minni og léttvægari en þeirra sem eru á EES-svæðinu. Má ekki treysta á stuðning hv. þingmanns þegar kemur að þessu?

Í þriðja lagi langar mig að forvitnast um það hvort ég hafi greint ágreining á milli hv. þingmanns og ráðherra eða ríkisstjórnar. Telur hv. þingmaður að ríkisstjórnin og þingið hefðu átt að ganga lengra þegar kemur að málefnum fyrir botni Miðjarðarhafs og því hörmungarástandi sem þar er? Hefði hv. þingmaður sett fram aðrar áherslur en ríkisstjórnin hefur gert?