154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[18:11]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Mig langar til þess að byrja þessa umræðu á því að vitna beint í skýrsluna, með leyfi forseta, í setningu sem ég held að sé lykilatriði í þessari umræðu allri og margir hafa lagt út af hér í þessari umræðu og það er þetta:

„Vaxandi skautun og verndarhyggja, afturför lýðræðis og mannréttinda, að ógleymdri loftslagsvánni, eru allt alvarlegar áskoranir sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir. Fyrir litla þjóð sem byggir velsæld sína og sjálfstæði á öflugu alþjóðakerfi, opnum heimsviðskiptum og virðingu fyrir alþjóðalögum er ekki valkostur að sitja hjá. Á viðsjárverðum tímum er enn brýnna að vel sé hlúð að víðtækum hagsmunum Íslands á alþjóðavettvangi.“

Mér hefur þótt þetta áhugaverð og góð umræða sem hér hefur átt sér stað. Eðli málsins vegna hefur töluvert verið rætt um að Atlantshafsbandalagið og aðkomu okkar þar og varnarsamninginn við Bandaríkin sem eru grunnstoðir öryggis og varna okkar. Það hefur verið rætt um aðild okkar að Fríverslunarsamtökum Evrópu sem veitir okkur aðgang að mörkuðum utan Evrópu og síðan auðvitað um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem er langmikilvægasti viðskiptasamningur Íslands. Ég er ein af þeim sem tel hagsmunum okkar, ekki síst á viðsjárverðum tímum, akkúrat betur borgið með því að taka skrefið alla leið og gerast aðili að Evrópusambandinu að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er kannski ekki það sem ég ætla þó að gera að umræðuefni hér heldur langar mig til að ræða norrænt samstarf sérstaklega. Það er mikilvægt nú þegar smáríki eiga töluvert undir, líka samvinnu sín á milli, á þessum viðsjárverðu tímum sem við lifum en líka er það viðeigandi í ljósi þess að á þessu ári gegnir Ísland formennsku í Norðurlandaráði.

Það liggur fyrir og við vitum það sem störfum á vettvangi Norðurlandaráðs að norrænt samstarf hefur gengið í gegnum tímabil mikilla breytinga þar sem varnar- og öryggismál, borgaralegur viðbúnaður, netöryggi, loftslagsbreytingar og annað slíkt einkenna norræna dagskrá meira en áður. Að sama skapi hefur orðið meiri þungi undanfarið í málflutningi þeirra sem hafa talið mikilvægt, jafnvel nauðsynlegt, að uppfæra Helsinki-samninginn svokallaða sem liggur til grundvallar norrænu samstarfi og er frá árinu 1962.

Undanfarið ár hefur síðan átt sér stað vinna á vegum Norðurlandaráðs við endurskoðun þessa samnings og hluta þess tímabils stýrði ég þeirri vinnu. Við hittum alla nefndarformenn í Norðurlandaráði, við hittum fulltrúa norrænu ráðherranefndarinnar og við hittum sérfræðinga alls staðar að um hin ýmsu málefni. Í þessari vinnu kom það í ljós að Helsinki-samningurinn þarfnaðist uppfærslu, ekki eingöngu tungumál samningsins, sem er úrelt á marga vegu og gamaldags heldur endurspegla þemun eða flokkarnir, kaflarnir í samningnum, einfaldlega ekki núverandi norrænt samstarf. Á þingi Norðurlandaráðs í Færeyjum í byrjun apríl skilaði hópurinn af sér skýrslu sem er nú til frekari vinnu í forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Skýrslan er ekki löng en yfirgripsmikil og ber þess merki að það var mikill einhugur í vinnuhópnum um langflest atriðin, að það þyrfti að uppfæra orðalag í mörgum köflum. Það var t.d. ekki talað um loftslagsmál í kafla um náttúruvernd, kaflinn um fjölmiðla var mjög einsleitur, prentmiðlar og analog-sjónvarp og -útvarp voru þar, ekki samfélagsmiðlar. Það vantaði aðra kafla; það vantaði kafla um viðbúnað og samfélagsöryggi, það vantaði kafli um loftslagsmál og það vantaði sérkafla um landamærahindranir, nokkuð sem við fundum illa fyrir á Covid-árunum o.s.frv. En langmesta plássið fékk umræða um öryggis- og varnarmál. Sá kafli hefur ekki verið til staðar í samningnum.

Í skýrslu ráðherra sem við ræðum hér er áréttað að þróun öryggismála á heimsvísu geri það að verkum að svæðisbundið samstarf verður sífellt mikilvægara. Þetta á við innan NATO og Norðurlandaráð hefur haft gott og rótgróið samstarf þar um. En það er mikilvægt að hafa nauðsynlega festu í varnar- og öryggissamstarfi norrænu ríkisstjórnanna og Norðurlandaráð er kjörinn vettvangur fyrir slíkt samstarf.

Nú er það svo að með aðild Svía og Finna að NATO breytast auðvitað forsendur norræns samstarfs á sviði öryggis- og varnarmála, það gefur augaleið. Af sögulegum ástæðum tók Helsinki-samningurinn ekki til þessa málaflokks. Hann er, eins og ég sagði, frá árinu 1962 og það var ákveðið vinasamband Finna við Sovétríkin þá sem átti stóran þátt í því að ekki var fjallað um öryggis- og varnarmál í norrænu samstarfi í upphafi sjöunda áratugar síðustu aldar. Það hefur síðan gjörbreyst þannig að þegar við horfum núna fram á þessa breyttu stöðu, þegar við horfum fram á mikilvægi og vaxandi þróun í átt að svæðisbundnu samstarfi í öryggis- og varnarmálum, þá liggur það fyrir að það þarf að taka upp þennan kafla í formlegu norrænu samstarfi og samningurinn þarf að bera þess merki, hann þarf að endurspegla þetta samstarf. Það ríkti eindreginn samhugur um að beina þeirri ósk til forsætisnefndar að vinna málið áfram þannig að kaflinn verði settur inn í samninginn.

Það eru líka fleiri atriði. Við töluðum um að í þessum öryggis- og varnarmálakafla þyrftum við að taka til netöryggismála og fjölþáttaógna, sem eru auðvitað gríðarlega mikilvæg mál þegar kemur að samfélagsöryggi. Þar þurfum við ekki bara á því að halda að það sé stórt, sterkt norrænt samstarf, svæðisbundið samstarf, við þurfum líka að tryggja hér á landi að við verðum ekki veikasti hlekkurinn í því samstarfi vegna þess að keðjan verður bara jafn sterk og veikasti hlekkurinn. Þar tel ég að við þurfum að leggja í töluvert mikla vinnu.

Þetta er það sem mig langaði að nefna sérstaklega hér, að það liggur sem sagt fyrir núna tillaga um að öryggis- og varnarmál verði felld inn í Helsinki-samninginn. Þar að baki liggja tillögur, skýrslur og vinna fjölmargra aðila frá öllum Norðurlöndum sem best þekkja til í þessum málaflokki og forsætisnefnd Norðurlandaráðs er núna með þann bolta. Það eru uppi áætlanir um að málið verði til lykta leitt á þingi Norðurlandaráðs í haust. Það þing verður haldið hér á Íslandi vegna þess, eins og ég sagði áðan, að Ísland gegnir formennsku núna, og ég bind miklar vonir við að þar verði þessi mál kláruð. Það mun setja enn eina stoðina undir stefnu okkar í öryggis- og varnarmálum og ekki bara efla öryggi okkar heldur tryggja það líka að rödd okkar og áhrif séu til staðar.

Okkur er títt að tala um Helsinki-samninginn sem norrænu stjórnarskrána okkar og við sem stjórnmálamenn vitum að við breytum ekki oft um stjórnarskrá, þótt sumum finnist að það megi gerast oftar en gerst hefur, en það koma tímar í sögunni sem fela einfaldlega í sér svo miklar breytingar að það þarf að breyta stjórnarskránni. Norrænt samstarf hefur sennilega aldrei verið mikilvægara en í dag, ekki bara vegna stöðunnar í öryggis- og varnarmálum heimsins og okkar heimshluta, ástæðurnar eru fleiri en þetta er áherslan hér núna, og Helsinki-samningurinn verður einfaldlega að taka á þeim áskorunum og tækifærum sem Norðurlöndin standa frammi fyrir.

Þannig að þetta er nú staðan og ég óska þess að verði niðurstaðan sú að Norðurlandaráð taki þá ákvörðun á þingi sínu hér í haust að samþykkja þessar breytingartillögur og uppfærslu á Helsinki-samningnum og gefa þar með boltann áfram yfir til norrænu ríkisstjórnanna þá muni ríkisstjórn Íslands grípa þann bolta vel og örugglega, vegna þess að ég er sannfærð um að þeir gerist ekki meiri hagsmunirnir hjá öðrum Norðurlöndum en Íslandi. Við eigum gríðarlega mikilla hagsmuna að gæta að þessi yfirfærsla eigi sér stað og að svæðisbundin samvinna á sviði öryggis- og varnarmála verði a.m.k. líka mjög sterk innan Norðurlandaráðs. Við erum öll komin saman í NATO, Norðurlöndin, við erum ekki öll innan Evrópusambandsins og við þurfum á því að halda að norræn samstaða sé óvefengjanleg á þessu mikilvæga sviði.