154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[18:32]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál. Ég vil taka undir það sem kemur fram í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra um það að allt frá fyrstu árum lýðveldisins hefur Ísland skipað sér í fremstu röð í liði með vestrænum þjóðum sem staðið hafa vörð um framþróun lýðræðis, mannréttinda og virðingu fyrir alþjóðalögum. Líka það að utanríkisstefna Íslands hvíli á traustum stoðum samninga og samstarfs við aðrar þjóðir. Það má segja, og ég tek undir með hæstv. ráðherra um það, að íslensk utanríkisstefna byggi á fjórum stoðum. Það er aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu, varnarsamningurinn við Bandaríkin, EES-samstarfið og norrænt samstarfi. Við erum stofnaðilar að NATO. Ég vil vekja athygli á því að fyrrverandi forsætisráðherra og flokkur hennar sem á aðild að ríkisstjórn er andstæðingur aðildar að Atlantshafsbandalaginu, en samt erum við á öðru kjörtímabili ríkisstjórnar þessara flokka og enn erum við í NATO. Ég get ekki séð annað en að við séum með breiða samstöðu varðandi aðild að Atlantshafsbandalaginu og er það vel og við höfum verið í 75 ár í ár. Ísland hefur tryggt öryggi sitt með þátttöku í þessu sterkasta varnarbandalagi sögunnar og með tvíhliða varnarsamningi við öflugasta herveldi heims sem eru Bandaríkin.

Mig langar aðeins að víkja að sögunni í ljósi þess hversu mikilvægt það er að við ræktum varnarsamstarfið við Bandaríkin og að það sé grundvallarstoð okkar í utanríkis- og varnarmálum. Þessar sögulegu rætur eru líka gríðarlega mikilvægar og áhugaverðar. Það var þannig að 9. apríl 1940, þegar Þjóðverjar, nasistar, hertóku Danmörku, þá fékk Ísland fyrst völd yfir eða tók við stjórn utanríkismála sinna. Þetta var í apríl 1940. Strax í júlí og desember það ár fóru íslenskir sendimenn þess á leit við Bandaríkin að Ísland færi undir varnir Bandaríkjanna, sem hluti af svokallaðri Monroe-kenningu. Það var til þess að koma í veg fyrir að Þjóðverjar myndu ráðast á Ísland. Þeir komu síðan í ágúst ári seinna. Monroe-kenningin felur það í sér að hún nær til allra Suður- og Norður-Ameríkuríkja, að þau séu hluti af áhrifasvæði Bandaríkjanna, og ég get ekki séð annað en að varnarsamningurinn byggi á því að við séum hluti af varnarkeðju Bandaríkjanna sjálfra, þ.e. ef það er ráðist á Ísland þá sé verið að ráðast á Bandaríkin líka. Það er ekki bara 5. gr. NATO-samningsins heldur líka þessi varnarsamningur. Við erum þar undir og það sýnir hversu mikilvægt það er að við séum með þennan virka varnarsamning og að hann þróist áfram, t.d. vegna netvarna og líka varðandi kapla í framtíðinni.

Ég tel að í alþjóðamálum og varnarmálum þá séum við mjög sammála að mörgu leyti. Það hefur verið vitnað hér til tveggja mála því til stuðnings. Það er þingsályktun um afstöðu Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs. Þar var þingheimur algerlega sammála:

„Alþingi ályktar að án tafar skuli komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu svo tryggja megi öryggi almennra borgara, jafnt palestínskra sem ísraelskra. Alþingi fordæmir öll ofbeldisverk sem beinast gegn almennum borgurum í Palestínu og Ísrael. Alþingi krefst þess að alþjóðalögum sé fylgt í einu og öllu í þágu mannúðar, öryggis almennra borgara og verndar borgaralegra innviða.

Alþingi fordæmir hryðjuverkaárás Hamasliða á almenna borgara í Ísrael sem hófst 7. október 2023. Alþingi fordæmir sömuleiðis allar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda í kjölfarið sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum …“

Þetta var gríðarlega mikilvæg ályktun af hendi Alþingis og ánægjulegt hve sammála þingheimur var.

Einnig má benda á þingsályktun um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu þar sem þingheimur var nánast alveg sammála, held ég, ég held að einn flokkur hafi ekki greitt atkvæði með alla vega einum lið af fimm í tillögunni og það var um stuðning Íslands við Úkraínu. Þetta eru þau mál sem eru hvað efst á baugi núna í heiminum og það er mikilvægt að við stöndum saman í öryggis- og varnarmálum.

Vissulega er norræna varnarsamstarfið mikilvægt en landfræðileg lega landsins er einfaldlega þannig að við erum ekki á Skandinavíuskaganum og við erum ekki með landamæri að Finnlandi heldur erum við eyja úti í Norður-Atlantshafi og þá er mikilvæg aðildin að Norður-Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum sem ég minntist hér áðan og þann sögulega bakgrunn sem sá samningur á sér rætur í. Þetta var eitt af fyrstu verkum íslenskrar utanríkisþjónustu á sínum tíma.

Mig langar aðeins að tala um EES-samninginn sem er mikilvægasti viðskiptasamningur sem Ísland hefur átt aðild að. Það kom fram hér í umræðum við hæstv. utanríkisráðherra áðan að hún hygðist leggja fram frumvarp til laga um bókun 35 sem kveður einfaldlega á um það að lög sem eiga uppruna sinn í Brussel gangi framar almennum lagaákvæðum í íslenskum lögum. Ég tel að frá þessu máli hafi verið gengið fyrir 30 árum síðan. Ég tel líka, og ég get fært rök fyrir því, að Alþingi Íslendinga hefði sennilega ekki samþykkt EES-samninginn ef þetta mál hefði ekki verið útkljáð þá. Málið var útkljáð með því að samþykkja 3. gr. laga um EES-samninginn. 3. gr. segir að það eigi að skýra ákvæði íslenskra laga í samræmi við EES-samninginn. Það var farin þessi leið eftir miklar vangaveltur og mikla diskúsjón, bæði á þingi og í samfélaginu, um það hvort við ættum að taka inn bókun 35. EES-samningurinn hefði ekki verið samþykktur með þeim hætti sem gert var ef það hefði átt að samþykkja bókun 35. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpi til EES-laganna, um bókun 35, með leyfi forseta:

„Það var lengi krafa EB í samningaviðræðunum um EES að EFTA-ríkin samþykktu forgang EES-reglna þar sem réttarstaða einstaklinga yrði ekki tryggð á sama hátt í EFTA-ríkjunum og í EB-ríkjunum ef dómarar í EFTA-ríkjunum dæmdu á grundvelli landsréttar þó hann stangaðist á við EES-reglur.

EFTA-ríkin féllust ekki á þessa kröfu EB þar sem ljóst var að í þeim EFTA-ríkjum þar sem þjóðarétturinn hefur ekki þegar forgang fyrir landslögum, mundi forgangsregla EB-réttarins kalla á framsal löggjafarvalds.“

Svo segir, með leyfi forseta:

„Niðurstaða samninganna var sú að í bókun 35 við EES-samninginn staðfesta samningsaðilar að löggjafarvald sé ekki framselt til stofnana EES. Einnig er tekið fram að markmiðum um samræmda túlkun EES-reglna verði að ná með reglum í réttarkerfi hvers ríkis. Samningsaðilar skuldbinda sig því til, ef þörf krefur, að lögfesta túlkunarreglur þess efnis, að ef upp kemur misræmi milli EES-reglna sem hafa verið lögfestar og annarra ákvæða í lögum, þá gildi reglur EES í því tilviki. Sjá nánar 3. gr. frumvarps til laga um Evrópska efnahagssvæðið og athugasemdir við þá grein.“

Það var greinin sem átti að taka á þessu vandamáli. Það er hins vegar ekki rétt að halda því fram að bókun 35 feli ekki í sér valdframsal eða að það sé ekki verið að ganga á löggjafarvaldið því að bókun 35 felur það í sér að reglur sem eiga uppruna sinn í Brussel ganga framar almennum reglum. Það myndi takmarka löggjafarvald Alþingis Íslendinga til framtíðar með þeim hætti að það yrðu tvö stig, tvenns konar almenn lög: Annars vegar lög sem eru samþykkt eingöngu af Alþingi Íslendinga og hins vegar lög sem eiga uppruna sinn í Brussel. Þau væri rétthærri. Það gengur ekki gagnvart stjórnarskrá lýðveldisins.

Annað er mikilvægt að hafa í huga. Það hefur vitnað hér til dóms nr. 24/2003, í svokölluðu fæðingarorlofsmáli, þar sem verið er að tala um að hann réttlæti það að lögfesta bókun 35. Ég tel þetta alranga túlkun. Hæstiréttur minnist á þrjú dæmi þess sem hafa forgang. Það er í lögum um lagaskil á sviði samningaréttar. Það er í lögum um ársreikninga, nánar tiltekið um alþjóðlega reikningsskilastaðla. Ef við ætlum að hafa alþjóðlega reikningsskilastaðla þá skulum við rétt vona það að alþjóðlegar reglur hafi forgang. (Forseti hringir.) Sama gildir um lög um loftferðir. Þar er fjallað um alþjóðaflug og þar verða að sjálfsögðu alþjóðareglur í alþjóðaflugi að hafa forgang. (Forseti hringir.) Það er ekki rétt, það er ekki hægt að líta þannig á að við getum núna farið að taka upp almenna forgangsreglu þegar við höfum búið við þessa túlkun á 3. gr. EES-laga í 30 ár. Þetta hefur gengið ágætlega í 30 ár og við eigum að halda áfram á þeirri vegferð. (Forseti hringir.) Ef við göngum á rétt borgaranna þá getur sá einstaklingur sótt skaðabætur eins og í öðrum ríkjum, eins og Ítalíu í Frankovich-málinu, og í fleiri ríkjum.