154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

utanríkis- og alþjóðamál 2023.

1099. mál
[19:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Mig langar að bregðast við nokkrum atriðum eftir umræður hér í dag sem ég þakka á sama tíma kærlega fyrir. Aðeins varðandi það sem hv. þm. Logi Einarsson nefndi áðan um að við þyrftum að taka skýrari afstöðu í málefnum eða átökum fyrir botni Miðjarðarhaf, að það væri ekki nóg að segja hlutina á lokuðum fundum. Það sem við segjum á alþjóðavettvangi skiptir auðvitað máli og það er sá vettvangur sem við höfum helst. Að tala þar skýrt úr sæti okkar skiptir máli og greiða atkvæði í samræmi við það. Það er auðvitað það sem við höfum verið að gera og gerðum síðast í síðustu viku og voru birtar fréttir um það. En mig langar líka af þessu tilefni að nefna það að útvarp allra landsmanna mætti sannarlega greina oftar frá því þegar Ísland kemur mikilvægum skilaboðum á framfæri á erlendum vettvangi og tekur þar skýra afstöðu og kemur okkar málstað á framfæri. Þannig að það er stundum kannski ekki nema von að almenningur heyri ekki af því þrátt fyrir samfélagsmiðla og einstaka stjórnmálamenn sem koma því þar á framfæri.

Hv. þm. Jakob Frímann Magnússon spurði hvað átt væri við í skýrslunni þegar við segjum að auka eigi og þurfi viðbúnaðargetu á varnarsvæðinu. Það snýst í raun einfaldlega um það að við séum betur í færum til að taka á móti bandamönnum sem hingað koma, hvort sem það er til æfingar eða eftirlits eða annars. Það er í samræmi við það sem ég nefndi líka í ræðu minni áðan, að okkur bæri skylda til þess að huga að eigin vörnum og við hefðum þar hlutverki að gegna og þar ættum við að hafa það skýrt að við sinnum ákveðnum hlutum sjálf og hluti af því er að auka viðbúnaðargetu á varnarsvæðinu.

Spurt var um fríverslunarsamning við Bandaríkin. Stutta svarið þar er einfaldlega að Bandaríkjamenn eru ekki á þeim buxunum að fjölga fríverslunarsamningum og þar á meðal ekki við Ísland. Meira að segja fríverslunarsamningsviðræður við bæði Bretland og Kenía og fleiri sem voru í gangi eru það ekki lengur en eru með skýr markmið um þéttara samstarf og samráð á ákveðnum sviðum og við ræktum það eins og við getum.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi að Norðurlöndin væru ekki öll undir sömu herstjórn í Northfolk, en Ísland og hin Norðurlöndin eru sannarlega að vinna að því að Norðurlöndin falli undir sömu herstjórn.

Aðeins um það sem nefnt var varðandi brúarsmíði og samhengi við Afríku og almennt í pólitíkinni. Við erum auðvitað alveg reiðubúin til að miðla málum og byggja brýr og við gerðum það t.d. í Evrópuráðinu þegar það kom upp deilumál og ekki síst þegar kom að því að stofna tjónaskrá fyrir Úkraínu. Við tökum að okkur að leiða samningaviðræður, hvort sem það er í allsherjarþinginu eða í Alþjóðaviðskiptastofnuninni og þegar við getum þá leggjum við okkur fram um að koma til móts við sjónarmið þróunarríkjanna. Við erum meðvituð um að þau telja sig mörg hver bera skarðan hlut frá borði. Ég var í Kaupmannahöfn fyrir ekki löngu síðan, í síðustu viku minnir mig, ásamt utanríkisráðherrum á Norðurlöndum og töluverðum fjölda utanríkisráðherra Afríkuríkja. Það eru gríðarleg verðmætir fundir sem eru einu sinni á ári. Veruleikinn er einfaldlega sá að það ríkir traust, virðing og vinátta milli Norðurlandanna og mjög margra Afríkuríkja sem skiptir máli að næra og rækta og skiptir máli bæði fyrir Norðurlöndin, fyrir ýmis ríki í Afríku og sömuleiðis bara fyrir pólitíkina í stóra samhenginu.

Það var spurt við hvað væri átt þegar talað er um að við séum að taka þátt á sviði varnarmála á borgaralegum forsendum. Það þýðir einfaldlega að við tökum þátt á borgaralegum forsendum af því að við erum ekki með her. Það er það sem það þýðir.

Ég verð að segja að ég er örlítið einfaldlega leið eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður var viljandi að misskilja orð mín eða ekki, en ég væri til í að spyrja á móti: Hvernig skilgreinir hv. þingmaður frið? Hvað værum við að meina ef við ætluðum að gera kröfu um að samið yrði um svokallaðan frið án frelsis? Hvers virði er friður án frelsis? Réttlátur friður er ekki það sama og friður sem fæst þegar látið er undan kúgaranum. Þetta veit úkraínska þjóðin mjög vel og geldur fyrir það á hverjum degi með lífi úkraínska borgara. Staðan er einfaldlega sú að íslensk stjórnvöld standa með þeim í þeirri baráttu og það væri sannarlega skammgóður vermir fyrir okkur hér á Íslandi að ganga að skilmálum Rússlands og það vita þau líka sem eru þar með vopnum að berjast fyrir friði. Ég held að ég geti alveg leyft mér að segja að ég veit ekki um mörg ríki sem þrá frið meira en úkraínska þjóðin. Úkraínska þjóðin þráir sannarlega frið. Þess vegna eru þau að kalla í örvæntingu eftir vopnum til að verjast og þess vegna hafa íslensk stjórnvöld tekið þátt í því verkefni með mjög takmörkuðum hætti — en þó, og ég er stolt af því.

Ég geri ráð fyrir því að ef við stæðum frammi fyrir því að á okkur væri ráðist þá myndum við mjög gjarnan óska eftir því að við fengjum annað og meira en mannúðaraðstoð og slík gögn, frekar að hér væri hægt að verjast með vopnum. Hvers virði er friður án frelsis og hvernig ætlum við að skilgreina frið? Við erum ekki að gera kröfu um að frjáls og fullvalda þjóð með alþjóðlega viðurkennd landamæri gefi það allt saman eftir í þágu svokallaðs friðar til þess að þau þurfi ekki að berjast lengur, því að hvers virði er friður án frelsis? Ég held að við sjáum það á hverjum degi að úkraínska þjóðin er að svara því mjög skýrt og við munum áfram standa með þeim og gera það sem við getum til að hjálpa þeim af veikum mætti í því verkefni.

— Ég steig ekki alveg úr ræðustól. Ég gleymdi nefnilega að lokum að þakka starfsfólki utanríkisráðuneytisins fyrir alla vinnuna. Það er mikil vinna sem fer í að taka saman yfir heilt starfsár öll þau helstu verkefni sem hefur verið sinnt. Þau gerðu það með miklum sóma og myndarbrag og ég þakka fyrir þá vinnu. Ég þakka sömuleiðis fyrir umræðurnar hér í dag. Þær eru góðar. Ég vildi að við gerðum það oftar að eiga samtal um utanríkismál, alþjóðamál, öryggis- og varnarmál. Ég held reyndar, því miður, að það muni reyna meira á það á komandi misserum að dýpka þá umræðu og hafa hana hér og hlakka til áframhaldandi samstarfs með hv. utanríkismálanefnd.