154. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2024.

Störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Í febrúar 2023 skipaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra starfshóp til að kanna helstu leiðir til bættrar orkunýtingar og orkuöflunar með hliðsjón af orkuskiptum 2040. Skýrsla starfshópsins, Bætt orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar, hefur vakið athygli og varpað ljósi á mikla gerjun vegna orkukosta. Það er ástæða til að þakka Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fyrir framsýni og fyrir að leggja rækt við þennan málaflokk.

Varðandi orkuöflun var starfshópnum sérstaklega falið að skoða nýja orkukosti á borð við sólarorku og sjávarfallaorku, glatvarma og varmadæluvæðingu og aðra orkukosti en þá sem falla undir rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Íslenskt samfélag býr að því fágæti að njóta ódýrrar raforku og afhending til heimila og almennra fyrirtækja þarf að vera í forgangi.

Virðulegur forseti. Staðreyndin er sú að raforkuverð á Íslandi er það lágt að nýir orkukostir eiga erfitt uppdráttar í samkeppni við þá sem fyrir eru vegna lágs söluverðs raforku. Þrátt fyrir það búa ákveðin svæði og landshlutar við hærra orkuverð en ásættanlegt er og starfshópurinn telur mikilvægt að jafna orkukostnað hérlendis og opna tækifæri nýrra orkukosta. Til að flýta fyrir orkuskiptum og nýjum orkukostum verður að einfalda leyfis- og umsóknarferli sem nú taka allt of langan tíma. Þá þarf að vekja almenning til umhugsunar um bætta orkunýtingu og bjóða upp á sveigjanleika í gjaldskrá sem hvetur til betri orkunýtingar og álagsstýringar. Aflnotkun dagsins í almenna raforkukerfinu getur sveiflast um 200 MW.

Virðulegur forseti. Til ársins 1975 voru öll hús í Eyjum kynt með olíu. Þá tók hraunhitaveita við og rafskautaketill. Þá kom einstök varmaskiptastöð sem skilar 70°C heitu vatni. Þegar Landsvirkjun og Landsnet skerða afhendingu raforku til Vestmannaeyinga þarf að nýta olíu sem orkugjafa og hefur fjarvarmaveitan í Eyjum keypt 6 milljónir lítra af olíu á árunum 2014–2023 vegna raforkuskorts. (Forseti hringir.) Orkuskipti kalla á aukna framleiðslu og virkjun orkukosta.