154. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2024.

framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.

1095. mál
[14:26]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil fagna framlagningu þessa frumvarps og fór ágætlega yfir það í 1. umræðu. Ég ætla ekki að tefja þetta mál og hvet til þess að við klárum það fljótt og vel. Það eru samt ákveðin atriði fyrir mig sem gamlan sveitarstjórnarmanninn að velta fyrir mér. Ég hjó sérstaklega eftir þessu orðalagi um sjálfstætt stjórnvald, sem vekur upp ákveðnar tilfinningar hjá manni, en um leið er verið að tala um verkefni sem bæjarstjórn felur viðkomandi stjórnvaldi eða framkvæmdanefnd að sinna. Þá veltir maður fyrir sér: Er farið að forma samninga milli bæjarstjórnar og þessarar væntanlegu framkvæmdanefndar og hvaða verkefni eru það?

Mér kemur líka í hug orðin fullnaðarákvörðunarvald sveitarfélaga, sem er auðvitað stóra málið á valdsviði sveitarfélaganna. Þau ráða sínum málum með fullnaðarákvörðunarvaldi í tilteknum málaflokkum. Það er líka tiltekið að breyting á fullnaðarákvörðunarvaldi er gerð í svokallaðri bæjarmálasamþykkt. Það er þá gert með því að það er samþykkt í bæjarmálasamþykkt. Bæjarmálasamþykkt er til umsagnar hjá ráðuneytinu og ráðherra veitir síðan endanlega samþykkt fyrir breytingu á bæjarmálasamþykktinni — þetta heitir stjórnum sveitarfélaga eða eitthvað því um líkt núna. Ég hef aðeins áhyggjur af þessu samspili. Ég upplifi þetta (Forseti hringir.) eins og þetta sé að verða hliðarstjórn sem nánast verði bæjarstjórn Grindavíkur númer tvö.