154. löggjafarþing — 111. fundur,  14. maí 2024.

framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.

1095. mál
[14:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er líka fyrrum sveitarstjórnarmaður á Suðurnesjum eins og hv. þm. Guðbrandur Einarsson. Ég hafði í ræðum hér á Alþingi á dögunum og fyrir þó nokkru síðan kallað eftir einhvers konar aðkomu ríkisins að einmitt þeim stóru verkefnum sem blasa við bæjarstjórn Grindavíkur og ómögulegt er að vinna fram úr nema með aðkomu ríkisins. Þess vegna fagna ég þessu frumvarpi og ég vona að það gangi hratt í gegn í dag. Ég sé að það er þverpólitísk sátt um frumvarpið og vinnuna í nefndinni. Að mér skilst þá hefur frumvarpið, sem er nokkuð flókið, þ.e. útfærslan er kannski flóknari en maður sá fyrir — að þetta sé allt saman í sátt og samlyndi við Grindavíkurbæ sem er afskaplega mikilvægt því að þetta er stórt inngrip. Það eiga örugglega eftir að verða einhverjar hindranir á leiðinni og þá er mikilvægt að það sé farið af stað í eins mikilli sátt og eins miklu upplýstu samkomulagi og mögulegt er.

Mér heyrðist hv. þingmaður nefna landshlutasamtök í sinni ræðu hér áðan en það má vera að sú sem hér stendur hafi tekið vitlaust eftir. En þá vil ég spyrja hvort eitthvað hafi verið rætt um landshlutasamtökin því að Grindavíkurbær er í mörgum verkefnum með Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum. Það er spurning hvort framkvæmdastjórnin kemur eitthvað að þeim verkefnum eða hvort það samstarf sé fyrir utan þetta samkomulag og þetta frumvarp.