154. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2024.

landsskipulagsstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

535. mál
[15:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er bætt við einni aðgerð í nefndaráliti meiri hlutans varðandi ríkisjarðir og eigendastefnu og meiri landbúnaðarnotkun. Gott og blessað, en eins og með allt þá veltir maður fyrir sér hvaða kostnaður eða ábati er þar á bak við. Þegar nefndir eru að breyta svona málunum í eina eða aðra áttina þá hef ég ekki hugmynd um hvaða áhrif það kemur til með að hafa á ríkisfjármálaáætlun til næstu ára. Það er svona gróf kostnaðargreining í þingsályktunartillögunni sjálfri en ekki á breytingartillögu meiri hlutans. Ég velti fyrir mér hvort það hafi verið gerð könnun á því hvort þetta væri óverulegt eða ekki eða hvort upphæðirnar sem eru mögulega þarna á bak við séu kannski töluverðar, því að eins og við vitum alveg er þó nokkur tilkostnaður við styrki til landbúnaðar. Þannig að ef allar ríkisjarðir færu í landbúnað þyrftum við væntanlega að auka dálítið ríkisstyrkina til landbúnaðarins. Ég velti fyrir mér hvort þetta hafi verið skoðað.