154. löggjafarþing — 112. fundur,  14. maí 2024.

skýrsla framtíðarnefndar fyrir árin 2022 og 2023.

1090. mál
[17:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér skýrslu framtíðarnefndar fyrir árin 2022 og 2023. Mig langar að byrja á smá sögulegum inngangi en fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, skipaði árið 2018 framtíðarnefnd um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga. Skipan nefndarinnar var í samræmi við fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar sem birtust í þágildandi ríkisstjórnarsáttmála. Meðal hlutverka sem þessi nefnd hafði var að fjalla um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga, þróun þeirra meginstrauma sem koma til með að hafa mótandi áhrif á samfélagið til framtíðar, einkum með hliðsjón af þróun umhverfismála og lýðfræðilegra þátta, og að stuðla að upplýstri umræðu um tækifæri og ógnanir framtíðar og vera virkur umræðuvettvangur um framtíðarfræði. Sú nefnd var hýst í forsætisráðuneytinu en formaður hennar kom frá stjórnarandstöðunni á þingi og var hv. fyrrum þingmaður Pírata, Smári McCarthy. Þar var strax lögð ákveðin lína eða tilraun gerð um það að hafa þessa nefnd öðruvísi en oft háttar til hér á Alþingi, þó svo að það sé vitanlega ekki óþekkt að formenn fastanefnda komi frá stjórnarminnihlutanum. Þannig er það til að mynda núna og hefur það held ég alltaf gilt um formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að hann er frá minni hlutanum. Næstum því alltaf hefur það verið þannig og er það þannig núna. Svona var þetta þá þegar þetta var í forsætisráðuneytinu.

Líkt og fram kemur í þeirri skýrslu framtíðarnefndar sem við ræðum nú var framtíðarnefnd Alþingis kosin við upphaf þessa kjörtímabils og mun í það minnsta starfa til loka þess. Meginhlutverk nefndarinnar er enn þá það sama, svipað eða sambærilegt því sem það í upphafi var, að fjalla um áskoranir og tækifæri Íslands í framtíðinni sem snerta tæknibreytingar, náttúruna, lýðfræði og sjálfvirknivæðingu. Við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði höfum alla tíð verið mjög áfram um starf framtíðarnefndar og teljum mikilvægt að hún fái framtíðarsess innan þingsins. Ég og við í Vinstri grænum teljum mikilvægt að nefndin verði gerð að fastanefnd svo að hún fái sterkari sess innan þingsins og líka einfaldlega af praktískum ástæðum, til að mynda þeim að eiga sér fastan stað í fundatöflu Alþingis, m.a. svo að hún lendi ekki í árekstrum við önnur þingstörf. Því miður hefur borið talsvert á því og þá hafa þingmenn þurft að forgangsraða tíma sínum. Ég sjálf, sem var til skamms tíma einn af fulltrúum í framtíðarnefndinni, lenti oft í því að þurfa að velja á milli funda til að sitja. Þetta er bagalegt. Sérstaklega til þess að nefndir haldi dampi í vinnu sinni þá skiptir máli að sem flestir nefndarmenn geti mætt og hafi það fast í sinni stundatöflu í vinnunni.

Aðrir þingmenn hafa hér í umræðunni bent á fyrirmyndina að framtíðarnefndinni sem fengin er frá Finnlandi og fjallað er um í skýrslunni. Ég get tekið undir það og ég tel mikilvægt að horfa þangað. Að auki eru sífellt fleiri lönd að koma á laggirnar framtíðarnefndum við sín þjóðþing og hafa þar m.a. verið að horfa til þess hvernig við hér á Íslandi höfum verið að stíga fyrstu skrefin við þessa vinnu. Ég tel mikilvægt að hafa nefnd sem horfir til langrar framtíðar og, við getum kannski orðað það þannig, stærra og víðar á málin en einstök lagafrumvörp. Þó svo að þau eigi auðvitað líka að vera til langrar framtíðar þá er verið að horfa með öðrum og breiðari hætti til framtíðarinnar í framtíðarnefnd og það er hreinlega hlutverk hennar.

Ég tek undir með þeim sem hafa gert það að umræðuefni að gervigreind sé eitt af því sem skiptir máli að nefndin fjalli um, til að mynda það sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fór yfir í sinni ræðu. En ég vil líka taka undir það sem hv. þm. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir talaði um, hvernig í rauninni gervigreindin lærir af til að mynda kynjaslagsíðu samtímans og ef ekki er hugað að því muni hún gera ráð fyrir að slík slagsíða, hvort sem hún snýr að kynjum, þjóðfélagshópum eða öðrum, sé einhvers konar norm. Það er mikilvægt að mannlegur hugur, frumkvæði okkar og sýn um það hvernig samfélag við viljum hafa til framtíðar sé þess vegna að hugsa um þessi mál. Það sama á auðvitað við um það sem lýtur að náttúrunni og lýðfræðilegum breytingum sem verða á samfélögum.

Mér hefur fundist það gefast vel sem hefur orðið ofan á á þessu kjörtímabili, að láta formennsku í nefndinni rótera, þ.e. að ólíkir flokkar, stjórn og stjórnarandstaða, skiptist á í formennskunni. Þar með hafa ólíkir einstaklingar tækifæri til að móta starf nefndarinnar en líka skiptir það máli að ólík sjónarmið eigi greiðan aðgang inn í umræðuna þegar við erum að tala um breiðu línurnar til framtíðar. Líkt og hefur komið fram í máli mínu þá finnst mér um mikilvæga nefnd að ræða. Ég mun tala fyrir því að hún fái fastan sess innan Alþingis og vil leggja mitt af mörkum og við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði til að efla hana enn frekar til framtíðar.