154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

frumvarp um Mannréttindastofnun Íslands.

[11:08]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við erum að horfa til þess að ljúka þingmálinu um Mannréttindastofnun á þessu þingi, þannig að því sé svarað. Varðandi málið um sanngirnisbæturnar þá er það sömuleiðis mál sem er á forræði Alþingis. Ég studdi það að málið kæmi fyrir þingið eins og það hafði verið samið en ég sá fyrir að það myndi fá margar umsagnir, enda gríðarlega snúið og flókið viðfangsefni hér á ferðinni. Það er í mínum huga ekki óeðlilegt þegar við erum að fást við jafn viðkvæm mál sem teygja sig svona langt aftur í tímann og eru hvert um sig sérstakt, ekki síst í ljósi þess að við höfum áður tekist á við sambærileg mál með sérstökum ákvörðunum en ekki með svona almennum hætti eins og lagt er upp með í þessu frumvarpi, að það geti tekið tíma fyrir okkur á þinginu að sammælast um leiðir til þess að gera upp þessi (Forseti hringir.) erfiðu gömlu mál. Mér sýnist að það verði að nota umsagnirnar til þess að vinna frekar úr málinu.