154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

landsskipulagsstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

535. mál
[13:55]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði hér um þessa ágætu tillögu um landsskipulagsstefnu. Ég vil af því tilefni benda á mjög þarfa og góða viðbót sem sem betur fer er að verða okkur tamara í þessum sal að ræða reglulega um og það er mikilvægi verndar líffræðilegrar fjölbreytni. Við finnum þess stað víðs vegar, skulum við segja, í téðri tillögu.

Að öðru leyti vil ég fagna framkominni aðgerð sem varðar það að ljúka kortlagningu víðerna, sem er mikilvægt verkefni og lögbundið verkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og er algjört grundvallaratriði þegar við til að mynda ákvörðum framtíð miðhálendisins, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á hér í sinni skýringu.