154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur og ég skal fúslega viðurkenna að með þessum ákvæðum sem hér er fjallað um þá erum við ekki í fullu samræmi við hin Norðurlöndin vegna þess að Norðurlöndin eru ekki öll með nákvæmlega eins reglur hvað þetta varðar. Ég er á þeirri skoðun að inngildingarákvæði séu mikilvæg. Frumvarpið eins og það kom frá ráðuneytinu gerði ráð fyrir því að fólk hefði þá endurnýjað dvalarleyfi sín. Það þýðir að fólk þarf að hafa verið hér í ákveðinn tíma og auðvitað gerum við ákveðna kröfu og við erum nýbúin að fjalla um þingsályktunartillögu um íslenskuna þar sem við viljum og gerum ákveðna kröfu til þess að fólk leggi sig fram við að læra íslensku og sé þátttakendur í íslensku samfélagi og við erum með stóra stefnu um inngildingu og hvernig við ætlum að taka vel á móti þessu fólki. Ég skil alveg spurningu hv. þingmanns en það var ekki gert ráð fyrir því í frumvarpinu að taka algerlega upp dönsku regluna eða norsku regluna eða sænsku regluna. En það sem við gerum þarna eru að við færum okkur nær því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Við erum að byrja með þessa hvata sem eru inngildingarhvatar og ég held að það sé mikilvægt og sé til mikilla bóta.