154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[14:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég fór yfir hér í frumvarpinu þá erum við að gera breytingar hvað fjölskyldusameiningar varðar. Við erum að gera ráð fyrir því að fólk hafi fengið endurútgefið dvalarleyfi sitt vegna þess að þarna er um svokallaða viðbótarvernd að ræða sem lýtur að því að það séu þannig aðstæður í heimalandi eða á svæði viðkomandi aðila. Þar af leiðandi teljum við eðlilegt að viðkomandi hafi farið í gegnum það ferli að aðstæður séu enn með sama hætti áður en farið er í fjölskyldusameiningar. Þetta þýðir tvö ár en það eru undanþágur í þessu frumvarpi. Þær lúta sérstaklega að umönnunaraðstæðum og svo erum við hér með breytingartillögu sem fela í sér hvata þannig að fólk geti fengið fjölskyldusameiningu fyrr en frumvarpið gerir ráð fyrir, geti það staðist kröfur um ákveðna þekkingu í íslensku, húsnæði, framfærslu og annað þess háttar. Þetta er í fullu samræmi við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum og okkur finnst eðlilegt að kerfið sé í einhverju samhengi við það sem þar þekkist.