154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[14:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við fórum einmitt vel yfir þetta í nefndinni. Það er auðvitað alveg ljóst að ef fjölskyldan kemur frá sama svæði og er í sömu aðstæðum þá myndu þau líka hljóta viðbótarvernd samkvæmt lögunum og samkvæmt reglum. Það er staðan og þess vegna er það í rauninni svarið. En aftur, ég veit að hv. þingmaður hefur ekki verið fyllilega sammála þegar við ræðum um það að nálgast hin Norðurlöndin hvað þessar reglur varðar. En þá erum við að vísa í að það séu ákveðnar kröfur áður en hér er farið í fjölskyldusameiningar. Þetta eru þær kröfur sem lagðar eru til í frumvarpinu. Það eru tvö ár. Það er sambærilegt við það sem er í Danmörku. Þar eru reyndar líka aðrar kröfur ofan á það, inngildingarkröfur sem ekki eru í þessu frumvarpi akkúrat hér. Mannréttindadómstólinn hefur fjallað um þetta mál. Þá voru það á sínum tíma þrjú ár en hann hefur fallist á það að tvö ár samræmist algjörlega mannréttindasáttmálanum. Aftur á móti tel ég einmitt að þessi breytingartillaga sem nefndin er að gera á þessum lið sé til mikilla bóta og í því felist hvati til þess að fólk geti fengið fjölskyldusameiningu fyrr. En til þess þarf það, já, að uppfylla ákveðin skilyrði.