154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[14:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 1. minni hluta um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016, um alþjóðlega vernd.

Frumvarp þetta hefur það markmið að breyta ákvæðum laga um útlendinga, sem fjalla um alþjóðlega vernd, til samræmis við löggjöf annarra Norðurlanda. Í stuttu máli má segja að verið sé að afnema tilteknar íslenskar sérreglur sem veita umsækjendum rýmri rétt en þeir myndu annars njóta hjá grannþjóðum okkar. Allsherjar- og menntamálanefnd hefur fjallað ítarlega um málið og fundað með helstu umsagnaraðilum um efnisþætti þess.

Það er ákveðin togstreita á milli markmiða útlendingalöggjafarinnar. Lögin þurfa að tryggja mannúðlega og skilvirka málsmeðferð stjórnvalda í málefnum hælisleitenda en jafnframt þarf að gæta samræmis við löggjöf nágrannaríkja til að koma í veg fyrir að íslensk löggjöf í málaflokknum leiði til þess að landið verði sérstakt aðdráttarafl fyrir hælisleitendur sem leiði til óeðlilegs vaxtar í fjölda umsókna um alþjóðlega vernd. Gríðarlegur vöxtur hefur verið í umsóknum um alþjóðlega vernd á undanförnum árum, sem rekja má til breytinga á útlendingalöggjöfinni árið 2016 þegar lögfestar voru sérreglur hér á landi og hefur sú þróun valdið vaxandi álagi á innviði landsins. Árið 2015 var fjöldi umsókna um vernd 356. Árið eftir voru þær 1.135 sem er þreföldun milli ára. Árið 2022 var fjöldi umsókna orðinn 4.519. Hækkunina milli áranna 2021 og 2022 má rekja til þriggja atriða, í fyrsta lagi afnáms ferðatakmarkana vegna Covid, í öðru lagi innrásar Rússlands í Úkraínu og í þriðja lagi þeirrar staðreyndar að Ísland, eitt ríkja í Norður-Evrópu, veitti fyrirvaralausa viðbótarvernd til umsækjenda frá Venesúela. Það leiddi til þess að Ísland hefur á síðustu tveimur árum verið eitt af þremur ríkjum í Evrópu sem taka á móti flestum umsóknum um alþjóðlega vernd frá Venesúela. Hin ríkin eru Spánn, þar sem búa fyrir 48,7 milljónir manna, og Þýskaland, þar sem búa 84,6 milljónir. Á Íslandi búa tæplega 400.000 manns. Árið 2022 var Ísland í þriðja sæti yfir hlutfallslega flestar umsóknir um vernd í Evrópu og er þá ekki tekið tillit til fólks á flótta frá Úkraínu. Í þriðja sæti í allri Evrópu, einangruð eyja í Norður-Atlantshafi. Önnur Norðurlönd hafa einnig upplifað vöxt í þessum málaflokki en sá vöxtur er ekkert í líkingu við þá þróun sem hefur átt sér stað á Íslandi í kjölfar Covid. Í samanburði við Norðurlöndin voru umsóknir á hverja 100.000 íbúa árið 2022 582 á Íslandi, en í Svíþjóð voru þær 133, 87 í Finnlandi, 85 í Noregi og 78 í Danmörku. Við vorum með 582 umsóknir á hverja 100.000 íbúa. Af þessum tölum er ljóst að við tökum á móti tæplega sjö sinnum fleiri hælisleitendum en Noregur miðað við íbúafjölda.

Mig langar að fjalla aðeins um hugtakið samábyrgð. Í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna segir að það eigi að vera samábyrgð milli ríkja hvað varðar móttöku flóttamanna. Evrópusambandið fjallar líka um samábyrgð og er að vinna tilskipun sem fjallar um samábyrgð í móttöku flóttamanna. Um hvað fjallar þessi samábyrgð? Jú, hún fjallar um það að byrðunum við móttöku flóttamanna á að dreifa jafnt á milli ríkja. Út á það gengur samábyrgðin. Út frá því mun Evrópusambandið vinna sína tillögu um það að ríki taki á móti hlutfallslega jafn mörgum flóttamönnum. Það er grundvallarreglan. Það er grundvallarregla í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og líka í þeim reglum sem við munum sjá frá Evrópusambandinu og Evrópusambandið hefur verið reynt að framfylgja þessu frá 2015. Það er augljóst mál að þegar Ísland tekur á móti 582 umsóknum eða hælisleitendum á 100.000 íbúa á meðan önnur Norðurlönd eru með 80 umsóknir á 100.000 íbúa þá er þessari samábyrgð ekki jafnt skipt á milli Norðurlandanna. Það er ekki jafnt skipt. Samábyrgðin er ekki í lagi á Norðurlöndunum þegar Ísland tekur á móti sjö sinnum fleiri hælisleitendum en Noregur miðað íbúafjölda. Það er ekki samábyrgð. Ísland er að taka á móti miklu, miklu fleiri hælisleitendum en hin Norðurlöndin og við ráðum ekki við þennan fjölda sem lítil þjóð, einangruð eyja í Norður-Atlantshafi með tæplega 400.000 íbúa. Það mun hafa afleiðingar fyrir innviði í íslensku samfélagi; skólakerfi, heilbrigðiskerfi og fleiri kerfi sem við höfum byggt upp í þessu velferðarsamfélagi. Og ég tala nú ekki um að það mun líka hafa pólitískar afleiðingar sem eru ekki til góðs fyrir íslenskt samfélag. Það hefur gerst á hinum Norðurlöndunum eins og í Svíþjóð og í öðrum ríkjum sem eru að glíma við nákvæmlega sama vanda og við erum að reyna að taka á hér.

Þegar allsherjar- og menntamálanefnd fjallaði um frumvarp þáverandi dómsmálaráðherra, Jóns Gunnarssonar, um breytingar á lögum um útlendinga, lá fyrir að það frumvarp tæki ekki á tilteknum íslenskum sérreglum og að ganga þyrfti lengra til að ná stjórn á málaflokknum. 1. minni hluti fagnar því að ríkisstjórnarflokkarnir hafi loks náð saman um að afnema tilteknar íslenskar sérreglur. 1. minni hluti tekur fram að frumvarpið óbreytt nær ekki tilsettum markmiðum, hvorki varðandi samræmi við löggjöf annarra Norðurlanda, sem er að vissu leyti mismunandi, né því markmiði að ná niður fjölda umsókna um alþjóðlega vernd. Því leggur 1. minni hluti til breytingartillögur við ákveðin atriði þar sem ákvæði frumvarpsins ganga skemur en löggjöf annarra Norðurlanda.

Ég ætla nú að fjalla um breytingartillögur 1. minni hluta og þá fyrst um talsmannaþjónustuna.

Frumvarpið tók nokkrum breytingum eftir að það var birt upprunalega í samráðsgátt stjórnvalda. Ein af þessum breytingum laut að rétti útlendings til talsmannaþjónustu. 1. minni hluti tekur undir sjónarmið þau sem lágu fyrir upprunalegum breytingum á rétti til talsmannaþjónustu, þ.e. að það væri fjárhagslega óhagkvæmt ef allir umsækjendur um alþjóðlega vernd, óháð eðli umsóknar eða þeirrar málsmeðferðar sem hún fær, fengju skipaðan talsmann á báðum stjórnsýslustigum. Verður það að teljast óþarft. Upprunalega var lagt til að Útlendingastofnun myndi afgreiða umsóknir án þess að umsækjanda væri skipaður talsmaður þegar fyrirsjáanlegt væri að umsækjendur fengju veitta vernd eða synjun á umsókn sinni á fyrsta stjórnsýslustigi skv. 29. gr., 1. mgr. 36. gr. og 44. gr. Rökin sem lágu að baki þeirri tillögu voru að réttindi umsækjanda í fyrrgreindum tilvikum væru nægilega tryggð með skipun talsmanns á kærustigi ef kæmi til synjunar á fyrsta stjórnsýslustigi.

Það er augljóst mál að þegar fyrirsjáanlegt er að umsækjandi fái vernd eða að umsókn verði synjað þá þarf ekki talsmann. Útlendingastofnun sér það strax. Það er fyrirsjáanlegt að þessi umsókn muni leiða til verndar. Hún getur afgreitt þá umsókn hratt og örugglega og líka þegar fyrirsjáanlegt er að umsókn verði synjað, þá mun hún hafna þeirri umsókn og þá getur umsækjandi kært til æðra stjórnsýslustigs og þá fengið talsmann.

Ef litið er til Danmerkur og Noregs eiga umsækjendur um vernd rétt á skipun talsmanns á kærustigi og nær þessi réttur ekki til meðferðar þess stjórnvalds sem tekur við og afgreiðir umsókn um vernd á lægra stigi. Ef litið er til Svíþjóðar eiga umsækjendur um vernd ekki rétt til talsmannaþjónustu á lægra stjórnsýslustigi ef umsóknir þeirra eru metnar bersýnilega tilhæfulausar eða ef fyrirsjáanlegt er hver niðurstaða máls verður. Eitt af yfirlýstum markmiðum frumvarpsins er að samræma íslenska útlendingalöggjöf löggjöf í öðrum Evrópuríkjum, einkum annars staðar á Norðurlöndunum. Sú breyting á 30. gr. sem var upprunalega lögð til þegar áform um lagasetningu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda var til þess fallin að samræma reglur um talsmannaþjónustu við þær sem þekkjast í þeim ríkjum sem við berum okkur helst saman við, þ.e. á Norðurlöndunum.

Það er ekki hægt að halda því fram að réttaröryggi í þessum málaflokki sé verra í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hvað þetta varðar. Við erum ekki að veita endilega meira réttaröryggi og þetta mun koma niður á skilvirkni í afgreiðslu mála hjá Útlendingastofnun vegna þess að það er auðvelt að afgreiða umsókn þegar fyrirsjáanlegt er að mati stofnunarinnar að hún fái jákvæða meðferð eða er hafnað. Það er mjög auðveld umsögn. Það sama er þegar umsókn er bersýnilega tilhæfulaus eða fyrirsjáanlegt er hver niðurstaðan verður.

Fyrsti minni hluti tekur undir þau sjónarmið að það sé fjárhagslega óhagkvæmt að allir umsækjendur um vernd fái skipaðan talsmann, jafnvel í þeim málum þar sem fyrirsjáanlegt er að umsækjendur fái veitta vernd eða synjun á umsókn á fyrsta stjórnsýslustigi. 1. minni hluti leggur til að bætt verði við ákvæði um talsmannaþjónustu sem er nánast samhljóða því sem stóð í frumvarpsdrögum sem birtust í samráðsgátt stjórnvalda fyrr í vetur. Ekki verður séð að það komi niður á afgreiðslu umsókna hjá Útlendingastofnun eða að það skerði réttaröryggi umsækjenda að takmarka rétt til talsmanns í framangreindum tilvikum við æðra stjórnsýslustig, líkt og gert er í Noregi og Danmörku, svo ekki sé talað um skilvirkni í afgreiðslu málanna.

Um vernd vegna tafa á stjórnsýslustigi. Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má finna íslenska sérreglu þess efnis að heimilt er að veita umsækjendum um alþjóðlega vernd sem hafa ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan átján mánaða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að útlendingur uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegrar verndar og að vera ríkisfangslausir skv. 39. gr. Ef um barn er að ræða skal þó miða við sextán mánuði.

Fyrsti minni hluti telur þessa sérreglu óheppilega enda íþyngir hún stjórnsýslunni þegar hvað mest á mæðir. Því er lagt til að hún falli brott. Þegar frumvarp þetta var birt í samráðsgátt mátti finna ákvæði sem mælti fyrir um að þessi undanþága skyldi falla brott. En þegar málið barst til þingsins var búið að fjarlægja þessa breytingu. Líkt og segir í frumvarpi því er birtist í samráðsgátt er ekki að finna sambærilega tímafresti annars staðar á Norðurlöndunum eða í löggjöf Evrópusambandsins og er því um séríslenska undanþágureglu að ræða. Verður að telja að þessi íslenska sérregla komi í veg fyrir efnismeðferð umsókna eftir ákveðinn tíma. Hér verður einnig að líta til markmiðs frumvarpsins sem er að samræma löggjöf okkar við löggjöf Evrópuríkja, og þá sérstaklega annarra Norðurlanda. Hitt markmið frumvarpsins er að fækka umsóknum um alþjóðlega vernd. Rýmri íslenskar sérreglur eru fallnar til þess að fjölga umsóknum um alþjóðlega vernd hlutfallslega miðað við önnur ríki Evrópu. Framangreind íslensk sérregla gengur því gegn báðum markmiðum frumvarpsins.

Það er mikið atriði að skilja það hvernig stendur á því að við séum að taka á móti svona hlutfallslega miklu fleiru umsóknum en önnur ríki. Það er vegna þess að við erum með sérreglur sem eru rýmri en á öðrum Norðurlöndum, rýmri en annars staðar í Evrópu. Það er ástæðan fyrir þeim vanda sem við erum í og það má rekja þetta til 2016 eins og ég sagði í upphafi máls míns hér.

Lengd dvalarleyfa og fjölskyldusameining vegna viðbótarverndar. Dvalarleyfi á grundvelli viðbótarverndar í núgildandi kerfi eru veitt til fjögurra ára og þeim fylgir réttur til fjölskyldusameiningar við nánustu aðstandendur sem teljast vera maki, börn og foreldrar ef handhafi er barn, við útgáfu dvalarleyfis.

Í frumvarpinu er lagt til að stytta gildistíma dvalarleyfa vegna alþjóðlegrar verndar, í 1. mgr. 37. gr., ríkisfangsleysis, í 39. gr., móttöku hópa flóttafólks, í 43. gr., og vegna 45. gr. úr fjórum árum í þrjú og að dvalarleyfi vegna viðbótarverndar skuli stytt í tvö ár. 1. minni hluti telur þá breytingu til bóta en telur að frekar ætti að stíga skrefið til fulls og mæla fyrir um sama gildistíma dvalarleyfa og í Danmörku, þ.e. tvö ár vegna alþjóðlegrar verndar en eitt ár vegna viðbótarverndar.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skilyrðum fjölskyldusameiningar vegna viðbótarverndar. Reglur Norðurlandaþjóða um fjölskyldusameiningu vegna viðbótarverndar eru ekki einsleitar, enda greinir þær á í ýmsum útfærsluatriðum varðandi nákvæm skilyrði fjölskyldusameiningar. Í minnisblaði dómsmálaráðuneytis til allsherjar- og menntamálanefndar, dagsettu 19. apríl, kemur fram að reglur um fjölskyldusameiningu eru mismunandi á Norðurlöndunum hvað varðar biðtíma, framfærsluskyldu, inngildingarkröfur og jafnvel hvað telst „fjölskylda“ í lagalegum skilningi.

Á Íslandi eru engar framfærslu- eða inngildingarkröfur gerðar við útgáfu þessara leyfa. Er það ólíkt því sem þekkist annars staðar á Norðurlöndunum. Hér er gott dæmi um það misræmi sem er á milli löggjafar á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum.

Dvalarleyfi á grundvelli viðbótarverndar eru nú veitt til fjögurra ára og þeim fylgir réttur til fjölskyldusameiningar við útgáfu dvalarleyfis. Í 6. gr. frumvarpsins er lagt til að nánustu aðstandendur handhafa viðbótarverndar öðlist rétt til alþjóðlegrar verndar hér á landi í kjölfar endurnýjunar dvalarleyfis þess sem viðkomandi leiðir rétt sinn af. Samhliða þeirri breytingu er í 9. gr. frumvarpsins lagt til að gildistími dvalarleyfa á grundvelli viðbótarverndar verði styttur úr fjórum árum í tvö ár.

Til samanburðar fá handhafar alþjóðlegrar verndar í Danmörku tveggja ára dvalarleyfi og handhafar viðbótarverndar fá útgefið eins árs dvalarleyfi en bæði dvalarleyfin er hægt að endurnýja. Nánustu aðstandendur eru skilgreindir í dönsku útlendingalögunum sem makar sem eru eldri en 24 ára, börn og foreldrar ef handhafi er barn. Í Danmörku er jafnframt lögbundinn tveggja ára biðtími til að öðlast rétt til fjölskyldusameiningar, og af því leiðir að handhafi viðbótarverndar þarf að hafa fengið endurnýjun á dvalarleyfi sínu tvisvar áður en nánasti aðstandandi getur fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Bið eftir réttinum til fjölskyldusameiningar í Danmörku er því tvö ár, líkt og lagt er til að verði á Íslandi samkvæmt frumvarpinu.

Í Danmörku eru jafnframt önnur skilyrði sem umsækjandi þarf að sýna fram á til að öðlast rétt til fjölskyldusameiningar, svo sem um að hann geti framfært sér og fjölskyldu sinni ásamt því að ráða yfir fullnægjandi húsnæði. Þurfa umsækjendur að jafnaði að uppfylla fjögur af sex inngildingarskilyrðum. Það er þó einnig vert að minnast þess að þrátt fyrir þessar reglur eru undanþáguheimildir frá þessum og öðrum kröfum. Auk þess gera dönsku útlendingalögin ríkar kröfur um inngildingu, m.a. tungumálakröfur. Þessi skilyrði eru hvorki í íslenskum lögum né eru þau lögð til í frumvarpinu. Er hér, hvað þessi skilyrði varðar, ekki samræmi á milli Íslands og Danmerkur, samanber markmið frumvarpsins.

Fyrsti minni hluti telur að þó Ísland þurfi ekki að samræma íslenska útlendingalöggjöf að öllu leyti við önnur Norðurlönd þá væri óábyrgt að huga ekki að eiginlegum inngildingarkröfum, svo sem um að vera virkur þátttakandi á vinnumarkaði, sem er mikilvægt í íslensku samfélagi, búa yfir íslenskukunnáttu og að búa í fullnægjandi íbúðarhúsnæði, sem er líka mikilvægt. 1. minni hluti telur skjóta skökku við að þrátt fyrir að talað sé um mikilvægi inngildingar í íslenskt samfélag sé hugtakið inngilding ekki skilgreint á neinn marktækan hátt í frumvarpinu. Hér er um nýtt orð að ræða sem orðið er eins konar tískuorð en það er engin skilgreining á þessu mikilvæga hugtaki sem er svo mikið notað í þessum málaflokki.

Í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar er lagt til að innleiða inngildingarkröfur og lögð til breytingartillaga um að hægt verði að sækja um fjölskyldusameiningu á grundvelli viðbótarverndar áður en tvö ár eru liðin, líkt og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Í breytingartillögu nefndarinnar er lagt til að réttur til fjölskyldusameiningar verði virkur eftir eitt ár, uppfylli viðkomandi kröfur um framfærsluskyldu og ákveðnar inngildingarkröfur sem fela í sér atvinnuþátttöku, húsnæði og íslenskukunnáttu og ráðherra verði jafnframt falið að útfæra verklagið nánar. Hér er verið að innleiða kröfur um framfærsluskyldu og inngildingu í gegnum ívilnandi undanþágu frá tímafresti til fjölskyldusameiningar.

Hér er verið að búa til eins konar gulrót og tíminn styttur, sem er frávik frá því sem gildir í Danmörku. Þetta getur valdið miklum vandkvæðum í skilvirkni og lagaframkvæmd og íþyngingu hjá stjórnsýslunni. Hér er veigamikið frávik frá markmiðinu um samræmi við löggjöf nágrannaríkja okkar, t.d. miðað við löggjöfina í Danmörku. Ekki er vitað í samræmi við löggjöf hvaða ríkis þessi breytingartillaga er gerð. Hér er því um séríslenska reglu að ræða, séríslenska reglu sem við þekkjum ekki annars staðar frá. Það er, varðandi réttinn til fjölskyldusameiningar, gríðarlega mikilvægt að við höfum ætíð kröfu um framfærsluskyldu, atvinnuþátttöku og íslenskukunnáttu, einhvers konar færni í íslensku og einhvers konar kröfu um að viðkomandi hafi sýnt viðleitni til að læra tungumálið. Það er erfitt að aðlagast öðru samfélagi. Það er erfitt að vera þátttakandi í öðru samfélagi þar sem þú skilur ekki tungumálið, skilur ekki menninguna og jafnvel hugarfar og hugsunarhátt. Það er meiri háttar mál. Það verður ekki gert á einu ári. Það verður ekki gert á 12 mánuðum. Það verður meira að segja ekki gert á tveimur árum. Við erum að tala um fólk sem kemur frá öðrum heimsálfum, öðrum siðmenningarheimum og þar með krafan um inngildingu eftir eitt ár er orðin tóm hvað þetta varðar.

Fyrsti minni hluti telur mikilvægt að samræmi sé varðandi þetta grundvallaratriði í löggjöfinni og leggur því til breytingu á 6. gr. frumvarpsins þannig að krafan um framfærslugetu og inngildingu verði meginreglan við fjölskyldusameiningu á grundvelli viðbótarverndar, líkt og í Danmörku.

Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem ég ætla að gera stutta grein fyrir.

„1. Á eftir 3. gr. komi ný grein, svohljóðandi:

Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:

a. 1. mgr. orðast svo: Útlendingastofnun skipar umsækjanda um alþjóðlega vernd talsmann við meðferð máls hans hjá stjórnvöldum. Þó skal Útlendingastofnun, þegar mál sætir málsmeðferð skv. 29. gr., 1. mgr. 36. gr. eða 44. gr., eða þegar fyrirsjáanlegt er að umsækjandi fái veitta alþjóðlega vernd eða synjun á umsókn sinni, að jafnaði afgreiða mál án þess að talsmaður sé skipaður. Sama á við ef umsókn er bersýnilega tilhæfulaus. Við kærumeðferð á umsækjandi ávallt rétt á þjónustu talsmanns.“

Þetta er sama orðalag og var í frumvarpi stjórnvalda í samráðsgátt stjórnvalda nema að sett er setningin um að sama eigi við ef umsókn er bersýnilega tilhæfulaus. Í 2. mgr. 29. gr. útlendingalaga í dag er fjallað um tilhæfulausar umsóknir. Það er alveg augljóst mál að þegar fyrirsjáanlegt er að umsókn fái afgreiðslu, verð samþykkt eða synjað, þá þarf ekki talsmann. Það er hægt að afgreiða það með miklum hraða.

„b. 2. mgr. orðast svo:

Ákvörðun Útlendingastofnunar um að skipa umsækjanda ekki talsmann er ekki kæranleg til kærunefndar útlendingamála. Þá gilda ákvæði IV., V. og VII. kafla stjórnsýslulaga ekki um slíka ákvörðun.

2. Við 6. gr.

a. 1. málsl. a-liðar 6. gr. orðist svo: Byggist umsókn fjölskyldumeðlims samkvæmt þessari málsgrein á tengslum við útlending sem nýtur alþjóðlegrar verndar skv. 2. mgr. 37. gr. þarf sá fjölskyldumeðlimur sem umsókn er byggð á að hafa fengið dvalarleyfi sitt endurnýjað tvívegis fyrir framlagningu umsóknar og jafnframt þarf sá fjölskyldumeðlimur að fullnægja eftirfarandi skilyrðum:

a. hafa verið virkur þátttakandi á vinnumarkaði í átta mánuði og uppfylla skilyrði um trygga framfærslu skv. a-lið 1. mgr. 55. gr.,

b. hafa til umráða íbúðarhúsnæði fyrir aðstandendur sem sótt er um fjölskyldusameiningarleyfi fyrir,

c. uppfylla skilyrði um íslenskukunnáttu.

b. Á eftir 1. málsl. a-liðar 6. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er skylt að útfæra í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar málsgreinar, þ.m.t. hvaða skilyrði eru sett um íslenskukunnáttu og íbúðarhúsnæði.

3. Við 9. gr. a.

Í stað orðsins „þriggja“ í b-lið komi: tveggja.

b. Í stað orðanna „tveggja ára“ í c-lið komi: eins árs.

4. Við 10. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: 2. og 3. mgr. og 1. málsl. 4. mgr. 74. gr. laganna falla brott.“

Ísland býr í einum ríkasta heimshluta veraldar og Norðurlöndin eru ríkustu samfélög heims. Það búa 8 milljarðar í heiminum. Um 114 milljónir eru á flótta. Við, 400.000 manna samfélag, getum ekki haft opin landamæri og tekið á móti öllum sem þess óska að koma hingað. Við getum það ekki, ef við ætlum að hafa opin landamæri. Við eigum að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar okkar líkt og aðrar þjóðir gera með sama hætti og gera það með sóma þannig að allir geti aðlagast íslensku samfélagi og íslenskt samfélag hafi getu til að taka á móti þeim einstaklingum sem hér fá alþjóðlega vernd. Það er það sem við eigum að gera. Þar eigum við að reyna að vera best í heimi. Við verðum aldrei best í heimi með opnum landamærum. Þegar við erum að taka á móti sjö, átta sinnum fleiri en hin Norðurlöndin hlutfallslega þá verður bara kaos, það verður stjórnleysi og stefnuleysi sem er búið að vera í þessum málaflokki frá árinu 2016.