154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[15:42]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar kannski að nýta þetta seinna andsvar mitt til að taka undir með hv. þingmanni varðandi það að vel færi á því að skilgreina í lögunum hugtakið inngilding. Ég held að það væri gott og jákvætt, ekki síst vegna þess að ég hef á tilfinningunni að flutningsmenn þessa frumvarps og margir þingmenn meiri hlutans og ráðherrar þessarar ríkisstjórnar skilji ekki hugtakið inngilding. Þau ákvæði sem eru lögð til, m.a. breytingartillaga hv. meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, virðast snúast meira um það sem áður var talað um sem aðlögun, þar sem gert er ráð fyrir því að einstaklingur sem kemur inn í nýtt samfélag aðlagist samfélaginu. Hið nýja orð inngilding er þýðing á enska orðinu „inclusion“, sem gengur út á það að fólk sé tekið inn í samfélagið, því sé tekið opnum örmum (Forseti hringir.) og að samfélagið styðji einstaklinginn í að verða hluti af samfélaginu en geri ekki eingöngu kröfu um að viðkomandi aðlagi sig upp á eigin spýtur að samfélaginu. (Forseti hringir.) Ég vildi bara segja þetta að lokum. Ég tek undir þetta með hv. þingmanni og hvet þingmenn meiri hlutans til þess annaðhvort (Forseti hringir.) að kynna sér hugtakið inngilding eða jafnvel skilgreina það í lögunum.