154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[16:06]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hv. þingmaður nefnir að þetta sé ekki hennar sérsvið. En þá ætla ég að taka fram að þetta er mitt sérsvið sannarlega og hefur verið það í u.þ.b. 15 ár. Svo vill til að ég hef skrifað heila fræðigrein um beitingu 2. mgr. 36. gr. og það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að það séu óskýr viðmið og annað varðandi beitingu hennar, varðandi sérstakar ástæður. Hins vegar þá hafa stjórnvöld og fyrst og fremst Útlendingastofnun og þeir sem yfir henni ráða, sem hefur verið Sjálfstæðisflokkurinn í allt of langan tíma, verið ósátt við beitingu ákvæðisins, ósátt við það að fólk fái að vera hérna þrátt fyrir hafa fengið vernd í öðrum ríkjum. Þau er einfaldlega ósammála þessum lögum. Þess vegna hefur skapast tregða í framkvæmd. Það er ekki vegna þess að þetta sé svo ótrúlega óskýrt og flókið og erfitt ákvæði. Kærunefnd útlendingamála um árabil og framan af var tiltölulega fljót að skýra þetta. (Forseti hringir.) Bæði þetta frumvarp og reyndar einna helst það frumvarp sem við samþykktum, því miður, hérna í fyrra lúta að því í rauninni að breyta lögunum frá því sem Útlendingastofnun var ósátt við, í málum sem Útlendingastofnun tapaði fyrir kærunefnd útlendingamála. (Forseti hringir.) Mig langar spyrja hv. þingmann, sem talar um að ná sátt um þetta ákvæði: (Forseti hringir.) Telur hún það réttlæta þessa pólitísku sátt að senda langveik og fylgdarlaus börn og fólk í hjólastól á götuna í Grikklandi, því að það er það sem mun gerast?

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)