154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Dagbjört Hákonardóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Góð spurning hjá hv. þingmanni og mér er ljúft og skylt að svara henni. Nú er það svo að á Íslandi gildir svokallaður tvíeðlisréttur, ólíkt þeim eineðlisrétti sem gildir á meginlandi Evrópu þar sem yfirleitt er nóg að vísa í þær alþjóðlegu skuldbindingar sem lönd hafa undirgengist og hafa þær þá bein réttaráhrif í landsrétti hverju sinni. Þegar við tökum þjóðréttarlega samninga líkt og við höfum gerst aðilar að í gegnum Schengen-samstarfið, eins og Dyflinnarreglugerðina, þá þarf að árétta ákvæðið eða leiða það hreinlega í landslög hverju sinni. Þannig að þetta er hreinlega liður í því. Ég vona að það svari spurningunni. Þetta er hreinlega til að skerpa á þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, þannig skil ég þetta. En ef við sjáum fram á einhvers konar lagaskil í þessu þá getum við notað tímann milli 2. og 3. umræðu (Forseti hringir.) og þá vænti ég þess að við getum fíniserað þetta, en þetta er alla vega skilningur okkar í dag.