154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[16:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína og nefndarálit. Mig langar að spyrja um breytingu varðandi 2. mgr. 36. gr., þar er fyrirmyndin í norskum lögum. Það er verið að taka út sérstakar ástæður og einvörðungu litið til sérstakra tengsla. Hvaða ákvæði er þetta í norsku útlendingalögunum? Er þetta 38. gr.?

Svo langar mig að spyrja í öðru lagi um fjölskyldusameiningar. Það segir, með leyfi forseta, í nefndaráliti 2. minni hluta:

„Breytingarnar eru til þess fallnar að valda flóttafólki vanlíðan, skapa einangrun og grafa undan farsælli inngildingu. Jafnframt munu þær skapa réttarágreining í stjórnsýslu útlendingamála sem áður hefur ekki verið til staðar og vinna þannig gegn markmiðum um aukna skilvirkni og hraðari málsmeðferð.“

Ég á svolítið erfitt með að skilja hvar Samfylkingin stendur í þessu máli. Nú er breytingin sú að það er verið að stytta árafjöldann niður í tvö ár til fjölskyldusameiningar og það er ekki gerð krafa um að viðkomandi hafi vinnu og hafi viðeigandi húsnæði og íslenskukunnáttu. En svo leggið þið til þá breytingu í álitinu að það verði gerð krafa um framfærslu. Spurningin er þessi: Er Samfylkingin á móti þessu frumvarpi eins og það liggur fyrir og breytingartillögu meiri hlutans varðandi fjölskyldusameiningar? Vill Samfylkingin sambærilegar reglur og eru á hinum Norðurlöndum eða ekki? Ég gat ekki skilið það öðruvísi en þannig, þegar ég las grein eftir þingmann flokksins í Morgunblaðinu í morgun, að hann stimplaði flokk minn og tvo aðra flokka sem flokka útlendingaandúðar í þessu máli. Það er ekki í fyrsta sinn sem þessi þingmaður hefur ráðast að Flokki fólksins og formanni flokksins, m.a. á síðasta þingi. (Forseti hringir.) Hver er afstaða flokksins varðandi þessi mál? Ég get ekki séð, miðað við hvernig formaður flokksins hefur talað, að hljóð og mynd fari saman. (Forseti hringir.) Ég átta mig ekki á hver grundvallarstefnan er. Viljið þið samræmi við Norðurlöndin eða ekki? Hvað er það sem þið viljið?