154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég get ekki skilið það öðruvísi sem er lagt til í nefndaráliti 2. minni hluta en að í skjóli þess að breytingarnar séu til þess fallnar, með leyfi forseta, „að valda flóttafólki vanlíðan, skapa einangrun og grafa undan farsælli inngildingu“, þá leggi 2. minni hluti til að fallið verði frá þessari breytingu um fjölskyldusameiningar en í staðinn verði gerð krafa um framfærslu eins og tíðkast í nágrannalöndunum. Það sem tíðkast í öðrum norrænum ríkjum er að þar er krafa um framfærsluskyldu, viðeigandi húsnæði og það sé þekking á tungumálinu. Við erum ekki einu sinni þar, við ætlum bara að taka upp tveggja ára reglu. Í Danmörku er lögbundinn tveggja ára biðtími til að öðlast fjölskyldusameiningu. Það er þá það sama og í Danmörku en við erum ekki með þessar aukakröfur eftir tvö ár um framfærsluskylduna, viðeigandi húsnæði og tungumálakunnáttu. Við ætlum bara að hafa tveggja ára regluna. En þið ætlið (Forseti hringir.) að falla frá þessari breytingu, að þú getir farið í fjölskyldusameiningu strax, en það er krafa um framfærslu. Það finnst mér alveg ótrúlegt. Einstaklingur sem kemur til landsins (Forseti hringir.) á að geta séð fjölskyldu sinni farborða samdægurs og fær fjölskyldusameiningu um leið og hann fær viðbótarvernd. (Forseti hringir.) Ég get ekki skilið þessa breytingartillögu út frá norrænum rétti. Ég ítreka það að þetta snýst um alþjóðlegar skuldbindingar (Forseti hringir.) og þá er samræmi og samábyrgð svo mikilvæg og séríslenskar reglur gilda ekki. Ég get ekki skilið það að Samfylkingin ætli að vera með Norðurlöndunum í þessum málum miðað við orð hv. þingmanns.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)