154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og mig langar að nota tækifærið og þakka henni fyrir skemmtilegt samstarf í allsherjar- og menntamálanefnd. Það er alltaf gaman að kynnast fólki og tala við fólk og rökræða við fólk sem hefur aðra heimssýn en maður sjálfur og maður brýnir eigin skoðanir líka með því., svo það liggi fyrir. En ég deili ekki skoðunum hv. þingmanns hvað þetta varðar og ég tel að Ísland eigi ekki að bera byrðar heimsins og hörmungar heimsins á sínum herðum. Það er líka mikilvægt að ég var ekki kosinn, fékk ekki umboð til þess til að umbreyta Íslandi og taka á móti 5.000 einstaklingum á ári og það eru 50.000 eftir tíu ár. Ég hef ekki umboð til þess, ég er ekki kosinn til þess (Gripið fram í.) í mínu kjördæmi, svo það liggi fyrir. En við getum verið rætt það seinna. Mig langar að spyrja um fjölskyldusameininguna. Finnst hv. þingmanni ekki rétt að gera kröfu til einstaklinga með dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar varðandi atvinnuþátttöku, viðeigandi húsnæði og lágmarkstungumálaþekkingu? Með atvinnuþátttöku t.d. þá geti þeir séð fjölskyldu sinni farborða og skaffað henni húsaskjól og hafi smá tengingu við samfélagið sem felst í þekkingu á því tungumáli sem hér er talað. Á fjölskyldusameining bara að vera réttur án nokkurra krafna?

Í öðru lagi varðandi dvalarleyfi þá virðist mega skilja á nefndaráliti hv. þingmanns að henni finnist að ekki ætti að tímabinda dvalarleyfi. Hún vitnar í Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna þar sem segir: „Stofnunin varpar þar ljósi á hvernig tímabundin dvalarleyfi hafi neikvæð áhrif á geðheilbrigði barna og ungmenna, sem og neikvæð áhrif á inngildingu …“ Finnst henni ekki rétt að tímabinda dvalarleyfi? Hér er verið veita fólki vernd, alþjóðlega vernd, viðbótarvernd, vegna ástands í heimalandi. Eiga þetta að vera ótímabundin leyfi eða eiga þetta að vera tímabundin leyfi? (Forseti hringir.) Ég sé að tími minn er búinn núna en ég er með margar fleiri spurningar sem verða bara að bíða seinni tíma.