154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[17:15]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta allsh.- og menntmn. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir andsvarið. Ég held að við höfum einmitt lagt alveg sérstaklega mikið á okkur við að ræða innflytjendamál út frá m.a. tölfræði, tölum og staðreyndum. Á endanum eru það fyrirliggjandi tölur sem kannski eru það sem mest festa er í hvað það varðar að gera þessa umræðu um útlendingamál meira staðreyndadrifna heldur en að hún sé tekin á grundvelli tilfinninga, eins og hefur verið raunin um alllangt skeið. En mér finnst nú sem betur fer þróunin vera í þá áttina að umræðan er að verða svona staðreyndagrundaðri. Það er ábyggilega hægt að fara í orðaleit í ræðum mínum í gegnum tíðina, ég held að ég haldi varla ræðu um þessi mál öðruvísi en að slá þann varnagla og hvetja fólk til að grauta þessu einmitt ekki saman. Það sem hv. þingmaður vísar til getur eflaust verið atriði sem snýr að því að það þarf að ræða bæði þessi mál, heildaráhrif fólksflutninga hingað til lands en síðan einmitt verndarkerfið sömuleiðis. Þetta er auðvitað umræða sem er tekin að einhverju marki samsíða en ég skrifa alls ekki undir það, raunar þvert á móti, að hafa grautað þessu tvennu saman, af því að við notum það orðalag og ég nota það oft sjálfur. Þvert á móti hef ég reynt að draga fram skilin þarna á milli af því að ég tel að þetta geri í rauninni alla umræðu um verndarkerfið erfiðari ef við höfum skilin ekki skýr þarna á milli.