154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta allsh.- og menntmn. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að það sé skynsamlegt að setja inn þetta tímamark sem verið er að setja hér. Ég held að við ættum í öllum tilvikum að víkja frá því að hafa kerfið hér með þeim hætti að það tosi til sín fleiri umsóknir heldur en eðlilegt væri bara út frá umfangi samfélagsins, fjölda og þar fram eftir götunum, borið saman við nágrannaþjóðir okkar. Þetta er bara partur af því. Ég held að þessi regla sem nú er lagt til að verði tekin upp sé tiltölulega hófleg í samhengi við það sem við sjáum í kringum okkur og ég held að þetta verði til bóta og veiki þann segul sem hefur falist í þessum hluta kerfisins eins og er. Ég veit að ég og hv. þingmaður erum ekki sammála um það tiltekna efnisatriði en þetta er afstaða mín til þessarar breytingar sem hér er lögð til.