154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[17:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ítreka bara það sem ég sagði áðan, að hér er þá í rauninni verið að ræða Dyflinnarmál, þ.e. ef fólk er ekki með vernd í öðru ríki, og það er samkvæmt Dyflinnarsamþykktunum sem við fylgjum, þá getur það verið að ef uppi eru sérstök tengsl þá fái fólk málsmeðferð. Það er þannig í dag og það mun líka vera svoleiðis verði frumvarpið samþykkt.

En aftur langar mig að spyrja hv. þingmann aðeins út í þessa samræmingu við önnur Evrópuríki og þá Norðurlöndin sérstaklega. Við vitum að þessi málaflokkur er kvikur og er iðulega að taka miklum breytingum. Við vitum t.d. að Finnar og Svíar hafa boðað breytingar á sinni löggjöf og þetta virðist breytast mikið. Þannig að mig langar að spyrja hv. þingmann út í varðandi fjölskyldusameiningar og þau skilyrði sem við setjum og breytingartillögur sem hv. þingmaður kom inn á sem við í meiri hlutanum komum fram með: Hugnast Samfylkingunni ekki að hafa einhvers konar hvata er lýtur að íslenskukunnáttu hvort sem um er að ræða umsóknir um dvalarleyfi eða í þessu tilfelli umsóknir um fjölskyldusameiningu?