154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[20:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því í þessari umræðu, sem hefur verið áhugaverð og mikilvæg, að þakka fyrir þá vinnu sem nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd hafa lagt fram. Það var tekið á móti fjölmörgum gestum og engum í raun og veru neitað áheyrn í þeim efnum og ég vil þakka sérstaklega formanni nefndarinnar, hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur. Enn og aftur, það er mikilvægt að góð umræða fari fram í svo mikilvægu máli.

Það hefur verið fjallað hér um ýmsa þætti þessa frumvarps eins og eðlilegt er og ætla ég aðeins að koma inn á nokkur atriði hvað það varðar. Ég vil byrja á því að nefna kærunefndina, ég er ánægður með þær breytingar sem gera á á nefndinni í frumvarpinu. Ég sjálfur hef talað fyrir því að það þyrfti að gera breytingar á þessari nefnd og lagði fram þingsályktunartillögu fyrir nokkru síðan, áður en þetta frumvarp var lagt fram, um að breyta þessari nefnd. Ég hef líka bæði í ræðu og riti komið þeim skoðunum mínum á framfæri að ég tel þessa nefnd vera mjög valdamikla og hún hefur tekið ákvarðanir sem eru umdeildar, eins og t.d. þegar ákveðið var að veita hér flóttafólki frá Venesúela skilyrðislausa vernd og mikill fjöldi fólks frá Venesúela kom til landsins og meira að segja var Ísland auglýst í Venesúela hvað það varðar. Það hefur orðið breyting á því og nefndin hefur snúið við sínum úrskurðum sem ég tel að hafi verið rétt. En að sama skapi hefur þetta náttúrlega skapað falskar væntingar hjá þessu fólki. Ég hef talað við lögmenn sem vinna í þessum geira sem segja og eru sammála mér í því að ákvörðun sú sem nefndin tók á sínum tíma hafi verið mistök. Ég fagna því að hér á að gera breytingu á þessari nefnd og það verður meiri sérfræðiþekking í nefndinni. Ég tel það mjög mikilvægt.

Auk þess hefur mikið verið rætt um 2. mgr. 36. gr. sem mun falla á brott verði frumvarp þetta að lögum. Ég tel mjög mikilvægt að svo verði. Þetta er, eins og komið hefur fram í þessari umræðu, séríslensk regla sem felur það í sér að málefni þeirra sem hafa vernd í öðru landi og koma hingað til lands og óska eftir vernd eru tekin til efnislegrar skoðunar. Á meðan flestöll ríki og reyndar öll ríki í kringum okkur vísa þessum umsóknum frá þá tökum við þær til efnislegrar skoðunar. Það kom fram í framsöguræðu formanns allsherjar- og menntamálanefndar að það væru um 200–300 umsóknir á ári sem lúta beint að þessari 2. mgr. 36. gr., þannig að það er alveg ljóst að þessi grein er ákveðinn segull eins og komið hefur fram, það orð hefur verið notað í þessari umræðu. Ég er alveg sannfærður um að þetta muni skila því sem ætlast er til. Það kom fram í ræðu hv. þm. Sigmars Guðmundssonar í Viðreisn að hann hefði efasemdir um að þetta myndi skila því sem ætlast er til. Ég er ósammála því. Ég held að það sé algjörlega ljóst að þetta mun skila árangri vegna þess að auðvitað er það þannig í tilviki þeirra sem eru kannski ekki sáttir við þá þjónustu sem þeir hafa á Ítalíu eða í Grikklandi að það fréttist fljótt og hratt og vel að þjónustan sé betri á Íslandi og þá leita menn þangað. Það er bara eðli mannsins að reyna að leita að betri þjónustu og þá hefur Ísland opnað dyrnar fyrir þessum umsóknum og hefur þannig sérreglu sem aðrar þjóðir hafa ekki. Þannig að það er jákvætt að mínu viti að verið sé að fella brott 2. mgr. 36. gr.

Aðeins um fjölskyldusameiningar, herra forseti, eins og rætt er um í 6.–8. gr., þar erum við að færa regluverkið til samræmis við það sem er á Norðurlöndunum, t.d. í Danmörku. Ég var að koma af svokölluðum NB8 fundi á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu sem haldinn var í Kaupmannahöfn og þann fund sitja fulltrúar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og fyrsti liður í þeim fundahöldum er að þingmenn segja frá því sem helst ber á góma í þjóðþingum þeirra landa. Ég sagði t.d. frá því að það myndi styttast í það að útlendingamálafrumvarpið yrði rætt hér í þinginu og þá kom einmitt sú umræða upp og menn voru að segja að það væri mikilvægt fyrir Ísland að læra af reynslu hinna þjóðanna, Norðurlandaþjóðanna og Eystrasaltsþjóðanna, hvað þetta varðar. Það kom t.d. fram af hálfu Danmerkur að þetta fjölskyldusameiningarákvæði í dönsku lögunum hafi breytt heilmiklu og það hafi ekki verið að skila því sem hér hefur komið fram af hálfu þeirra sem eru á móti þessu frumvarpi, svo það sé tekið sérstaklega fram. Ég hef því ekki áhyggjur af því að þetta ákvæði í lögunum hafa einhver neikvæð áhrif á hina svokölluðu inngildingu, sem ég vil nú bara kalla aðlögun. Þeir könnuðust ekki við það í Danmörku, svo það sé sagt hér.

Það eru mikilvægar og góðar breytingar í þessu frumvarpi og ánægjulegt að það hefur náðst þessi samstaða sem maður hefur heyrt hér. Að vísu eru kannski Píratar og Viðreisn að skera sig svolítið úr hvað það varðar. En umræðan er hér með allt öðrum hætti en hún hefur verið undanfarin ár hvað breytingar á útlendingalögum varðar. Það hefur t.d. margsinnis ekki gengið eftir að breyta 2. mgr. 36. gr. en núna er mun meiri samstaða um það og ég fagna því að sjálfsögðu.

Þegar kemur síðan að fjölskyldusameiningu almennt og þessari aðlögun þá er náttúrlega mjög mikilvægt að við leggjum áherslu á íslenskuna og greiðum götu fólks í að læra íslensku. Við vorum að samþykkja þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun og þar kemur einmitt fram mikilvægi þess að stjórnvöld setji meiri kraft og fjármagn í það að hjálpa fólki að læra íslensku. Ég held að það séu allir sammála um að þetta er mikill lykill að því að fólk aðlagist vel okkar samfélagi sem við leggjum að sjálfsögðu mikla áherslu á.

Ég vildi aðeins koma inn á það sem kom fram í ræðu formanns Samfylkingarinnar. Ég fagna því að Samfylkingin skuli hafa tekið stefnubreytingu í þessum málaflokki og muni í meginatriðum styðja þetta frumvarp. Það kom fram í ræðu formannsins. En Samfylkingin er reyndar á móti ákvæðinu um fjölskyldusameiningar. Það er mikil breyting í orðræðu þeirra frá því fyrir ári síðan þó svo að ég sé ekki samt sem áður að rifja upp það sem var sagt af hálfu Samfylkingarinnar þá, en það er mikil breyting þar á.

Ég verð að segja að ég hef verið svolítið hissa á þessum málflutningi sem hefur komið fram um það að innviðirnir, eins og við þekkjum öll, séu ekki sprungnir. Það hefur komið fram hjá þeim sem hafa lýst andstöðu við frumvarpið. Það er bara ekki rétt vegna þess að við höfum séð það sérstaklega á Suðurnesjum að þar er álagið gríðarlega mikið vegna aukins fjölda hælisleitenda og t.d. í Hafnarfirði líka. Þetta hefur komið fram frá bæjaryfirvöldum bæði í Hafnarfirði og Reykjanesbæ svo dæmi sé tekið og við eigum náttúrlega að hlusta eftir því vegna þess að það eru sveitarfélögin sem gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að taka á móti flóttafólki og það aðlagist vel. Sveitarfélögin verða að geta ráðið við það og við verðum að hlusta á þeirra raddir, það bara segir sig sjálft. Síðan eigum við líka að hlusta á þær raddir sem segja að við séum komin að þolmörkum og við getum ekki tekið á móti fleirum. Það eru 80% íbúa í Suðurkjördæmi komin á þá skoðun og ég held að rúmlega 60% landsmanna séu þeirrar skoðunar að þetta sé orðið gott, að nú þurfum við bara að reyna að aðlagast þessum fjölda sem er kominn til landsins og reyna að vinna úr því og við getum ekki tekið á móti fleirum. Eigum við, þjóðkjörnir fulltrúar, ekki að hlusta á raddir landsmanna þegar kemur að þessu máli, 60% landsmanna og í Suðurkjördæmi 80% sem telja að við séum komin að þolmörkum í því að taka á móti hælisleitendum? Þetta frumvarp er einmitt viðbrögð við því. Við erum hér að færa regluverkið til þess sem er í löndunum í kringum okkur og það gerum við með því að taka út þessa séríslensku reglu til að draga úr þeim mikla fjölda sem kemur hingað og það þarf enginn að velkjast í vafa um að það er náttúrlega tilgangurinn með þessu frumvarpi, að bregðast við stöðunni eins og hún er núna vegna þess að hún er óviðunandi.

Ég vildi koma aðeins inn á það að ég hef verið þeirrar skoðunar að við getum gert margt annað heldur en að taka á móti flóttamönnum hingað til Íslands. Við getum aðstoðað flóttamenn og þá sem eru í neyð á þeirra heimaslóð eða í nágrannalöndum þar sem neyðin er og þar sem fólkið er. Það getur skipt algerlega sköpum. Ég vil t.d. nefna bara afganska flóttamenn. Það er mjög stór hópur fólks. Afganskir flóttamenn er sá hópur sem flokkast sem flóttamenn sem er hvað stærstur. Það var gerð könnun ekki fyrir svo löngu síðan á vegum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna þar sem kom fram að 70% afganskra flóttamanna vilja fara til Írans. Íran er náttúrlega nágrannaríki Afganistan. Ástæðan er sú að tungumálið er hið sama, menningin sú sama og hvað sem okkur finnst um Íran þá hafa þeir staðið sig mjög vel að taka á móti þessum stóra hópi. Það eru á bilinu 5–7 milljónir afganskra flóttamanna í Íran og það koma u.þ.b. 4.000 Afganir að landamærum Írans daglega og þetta veldur gríðarlegu álagi þar í landi. Við gætum t.d. aðstoðað með því að færa Sameinuðu þjóðunum í Íran styrk til að mæta þessu. Sameinuðu þjóðirnar í Íran eru að byggja skóla og mæta þessum kröfum vegna þessa gríðarlega stóra hóps. Við getum t.d. stutt Sameinuðu þjóðirnar í þessu landi og aðstoðað þannig fólkið sem vill í raun og veru vera þar, sú aðstoð myndi skila mjög miklu, í staðinn fyrir það að þegar við erum að taka á móti Afgönum hérna á Íslandi þá er náttúrlega fólkið komið í allt aðra menningu, það þarf að læra algerlega nýtt tungumál o.s.frv., þannig að það er bara mjög erfitt eitt og sér.

Ég hef talað fyrir þessu og mér finnst að þetta eigi að vera stefnan í þessum málaflokki til framtíðar, að við reynum að aðstoða eins og við mögulega getum flóttamenn þar sem þeir eru á heimaslóðum eða í nágrannaríkjum landsins sem þeir eru að yfirgefa. Ég held að það geti skilað mjög miklum árangri. Ég hef aðeins skoðað þetta með flóttamannanefnd Evrópuráðsins þar sem ég á sæti fyrir Íslands hönd og það eru allir sammála því að það sé mjög áhrifarík og góð leið að gera þetta með þessum hætti. Það hefur komið fram hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að fyrir hvern og einn flóttamann sem kemur til Vesturlanda og sem við erum að aðstoða er hægt að hjálpa a.m.k. 15 manns fyrir sama pening á heimaslóðum eða í nágrannaríkjum.

Ég vildi líka aðeins koma inn á það, herra forseti, sem var talað hér um Grikkland af hálfu hv. þm. Sigmars Guðmundssonar frá Viðreisn, þar sem hann sagði að verndin í Grikklandi væri í orði en ekki á borði. Ég er ekki sammála þessu. Ég kynnti mér svolítið stöðuna í Grikklandi. Ég fór í ferð með flóttamannanefnd Evrópuráðsins til Grikklands og ég skoðaði þar flóttamannabúðir, ræddi við ráðamenn í Grikklandi og flóttamannaráðherrann kom á fund flóttamannanefndarinnar og fór yfir þessi mál og hann var spurður spjörunum úr. Evrópusambandið hefur styrkt Grikki verulega fjárhagslega til að reyna að bæta þessa aðstöðu enda er fjöldinn gríðarlegur sem kemur til Grikklands og leitar hælis þar. Þeir eru með svokallað aðlögunarkerfi sem kallast HELIOS og hefur gefið mjög góða raun og Flóttamannastofnunin hefur lýst ánægju sinni með þetta kerfi. En þeir hafa reyndar þá reglu í Grikklandi að ef flóttamaður þiggur ekki að fara inn í þetta aðlögunarkerfi og ákveður að fara eitthvert annað, t.d. til Íslands af því að hann heldur að þjónustan sé betri þar, og honum er svo hafnað, hann fær synjun hér á Íslandi og er sendur aftur til Grikklands þá er viðkomandi búinn að fyrirgera rétti sínum til að komast inn í þetta HELIOS-prógramm, þetta kerfi, vegna þess að hann yfirgaf landið og neitaði eða afþakkaði að fara inn í kerfið í upphafi. Þetta er þetta sem þeir búa við í Grikklandi. Hér var sagt í þessari umræðu að flóttamenn í Grikklandi væru á götunni og svæfu á bekkjum og ég kannast ekki við þetta, a.m.k. ekki í þessari ferð sem ég fór og ég veit um annan hv. þingmann sem fór líka í ferð til Grikklands og getur staðfest mína sögu, það var ekki að sjá flóttamenn í hjólastólum og öðru slíku, eins og lýst hefur verið hér, á götunni í Grikklandi. Ég spurði sérstaklega um þetta á sínum tíma í fyrirspurnatíma með gríska flóttamannaráðherranum, hvort það væri þannig að fólki í hjólastól væri neitað eða það væri á götunni í Grikklandi, og hann þvertók fyrir það, bara svo að þær upplýsingar komi fram.

En ég sé að tíminn er farinn að styttast, herra forseti. Ég vil bara segja það að lokum að ég fagna því að sjálfsögðu að við erum komin þessa leið með þetta frumvarp. Það er mikilvægt að við samræmum þetta regluverk Norðurlöndunum og nágrannalöndunum, þjóðin er að kalla eftir því, ég held að það sé algerlega ljóst. Hún er að kalla eftir því að við höfum bara sama regluverkið, enda er ekkert sem rökstyður það að við hér, fámennasta þjóð í Evrópu með mjög gott velferðarkerfi, eigum ekki að búa við sama regluverk og aðrar þjóðir þegar kemur að móttöku flóttamanna. Það er ekkert sem sem rökstyður það að við eigum að vera með eitthvert veikara regluverk sem gerir það að verkum að fólk sækir hingað í auknum máli. Við höfum verið að sjá þessa miklu aukningu sem ég nefndi. Ég fór t.d. yfir það að síðan 2019 þá hafa umsóknirnar verið jafn margar og allir íbúar Selfoss og það sjá það allir að það er gríðarlegur fjöldi. Það var líka rætt um það, það var svona verið að ýja að því að það væri ekki rétt hjá mér að kennarar væru að kvarta yfir álagi. Það er bara alveg fullkomlega rétt vegna þess að ég hef rætt við kennara eins og t.d. á Suðurnesjum sem segja að álagið sé mjög mikið og þeir endast skemur í starfi þegar það eru svona mörg börn af erlendum uppruna í bekkjum og kennarar fá ekki þann stuðning sem þeir þurfa með í þessa bekki. Svo það sé alveg á hreinu þá koma þessar upplýsingar frá bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ sem hafa sagt það, bæði opinberlega og í viðtölum sem ég hef átt við bæjarstjórn og bæjarstjóra, að þetta álag sé komið langt yfir þolmörk og stjórnvöld verði að bregðast við því. Við höfum heyrt þetta líka frá bæjarstjóranum í Hafnarfirði. Við erum einfaldlega með þessu frumvarpi að svara þessu ákalli.

Ég segi það bara að lokum að ég vil þakka fyrir þessa góðu vinnu enn og aftur, þetta er vönduð vinna sem hefur farið fram í nefndinni. Ég þakka dómsmálaráðherra fyrir hennar miklu vinnu og að þetta mál sé komið alla þessa leið hér í þingsal og við vonandi sjáum það bara á næstu dögum að þetta frumvarp verði að lögum vegna þess að ég segi enn og aftur: Þjóðin er að kalla eftir því.