154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[20:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína sem var um margt áhugaverð. Ég deili áhyggjum hans varðandi Suðurnes og ég er sammála honum í því að ég tel að íbúar á Reykjanesi hafi axlað of þungar byrðar vegna hælisleitenda sem hingað koma til landsins. Ég tel að bæði Hafnarfjörður og Reykjanesbær hafi raunverulega verið að taka á móti þeim fjölda fólks sem þeir ráða ekki við, hvorki skólakerfið eða aðrir innviðir í þessum sveitarfélögum. Ég get tekið sem dæmi Noreg, ástæðan fyrir því að Norðmönnum hefur farnast svona sæmilega vel varðandi inngildingu og aðlögun er að þeir hafa náð að dreifa hælisleitendum á vesturströndina. Það er fólksfækkun í sveitarfélögum á vesturströndinni, sérstaklega því norðar sem þú ferð, en þeim hefur tekist að gera það þannig að þeir hafa dreift álaginu á sveitarfélögin. Hælisleitendur hafa ekki safnast saman á einum stað. Munurinn á Noregi og Danmörku, hver er hann? Jú, það er stærðin. Danmörk er 43.000 km² en Noregur er rúmlega 300.000. Við erum með 100.000 km² og við erum ekki að dreifa fólkinu á svæðið. Þannig að ég deili þessum áhyggjum og ég tel mikilvægt að í framtíðinni verði umsækjendum dreift víðar um land.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann er um breytingartillögur meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar varðandi fjölskyldusameiningu, undantekninguna þar sem fallið er frá reglunni um tvö ár. Í breytingartillögu nefndarinnar er lagt til að réttur til fjölskyldusameiningar verði virkur eftir eitt ár, uppfylli viðkomandi kröfur um framfærsluskyldu og ákveðnar inngildingarkröfur sem felast í atvinnuþátttöku, viðeigandi húsnæði og íslenskukunnáttu. Hefði ekki verið rétt að hafa þessar kröfur eftir tvö ár eins og í upphaflega frumvarpinu? Ekki bara segja: Þú átt rétt á fjölskyldusameiningu eftir tvö ár og málið búið? (Forseti hringir.) Er hann ekki sammála því að þetta er í ósamræmi við dönsku löggjöfina og vikið frá upphaflegum markmiðum laganna sem eru í samræmi við Norðurlöndin?