154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[20:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við höldum áfram umræðunni um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga. Við í Viðreisn, ekki síst í ljósi þeirrar þróunar síðustu misseri og kannski ekki síst síðustu mánuði sem felur í sér ákveðna skautun, sendum bréf til þáverandi forsætisráðherra, sem tók afar vel í það bréf, þar sem við vildum leggja áherslu á það að með því að ná ekki bara samtali heldur samstarfi og samvinnu um skynsamlegar, raunsæjar og mannúðlegar breytingar á útlendingalögunum, þá væri miklu náð fram til að ná sem mestri, ekki bara sátt heldur til þess að minnka skautun og líka pólitíska tækifærismennsku af jöðrunum þegar kemur að þessum viðkvæma málaflokki.

Við sendum þetta bréf og rifjuðum upp að á sínum tíma árið 2016 — og ég skynja að það er enn þá pínulítið viðkvæmt fyrir hluta stjórnarflokkanna, þar með talið kannski Sjálfstæðisflokkinn að rifja það upp — þegar samþykkt var samhljóða á Alþingi þágildandi löggjöf þá markaði sú löggjöf að vissu leyti ákveðin tímamót vegna þeirrar vinnu sem átti sér stað. Það var ekki síst vegna þess frumkvæðis og þeirrar forystu Sjálfstæðisflokksins með sína ráðherra innan borðs og varaformenn, fyrst Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og síðan Ólöfu Nordal, sem tóku við innanríkisráðuneytinu sem þá var og beittu sér fyrir því að það yrði lögð mikil vinna í það að ná þverpólitískri samstöðu. Það var þessi sýn um það að við vildum ekki samfélag sem yrði byggt upp af tortryggni gagnvart útlendingum. Við vildum ekki samfélag, ekki löggjöf sem myndi vera ákveðinn stökkpallur fyrir þá sem vildu gera sig stærri, hvort sem þeir hafa verið talsmenn lokaðra landamæra eða opinna. Við töldum síðastliðið haust að það skipti máli að stíga þessi skref, ekki síst út frá því að á þessum sjö árum sem þá voru frá því að löggjöfin var samþykkt 2016 er margvísleg reynsla komin á útlendingalöggjöfina en þróunin í flóttamannamálum hefur líka gjörbreyst á heimsvísu. Við erum núna að upplifa til að mynda í heiminum, bara hér í nágrenni okkar, bæði innan Evrópu og alveg í næsta nágrenni, fleiri stríð, meiri hörmungar heldur en í langan tíma, jafnvel ekki frá því í síðari heimsstyrjöld, þannig að flóttamannastraumurinn er að breytast. Þá þurfa vestrænar þjóðir sem aðrar þjóðir að vera tilbúnar í það og hvað það þýðir.

Það sem ég vil draga fram hér er að það er mín skoðun, sem hefur ekki breyst, að við eigum að taka vel á móti fólki. Yfirskriftin á alltaf að vera mannúð. Við þurfum líka að sýna skynsemi og raunsæi út frá þeim veruleika sem við búum við. Ég sagði og við í Viðreisn í bréfinu að landið væri ekki lokað, mætti ekki vera það, ekki bara á grundvelli alþjóðasamninga heldur yrðum við að uppfylla okkar skyldur út frá alþjóðalögum og samningum en landið væri heldur ekki galopið. Gott og vel. Við bentum á að það væri skynsamlegt að líta til nágrannalandanna eins og Norðurlandanna og að hluta til er verið að gera það hér. Ég vil fagna því að það er verið að stíga skref. Eru þau nógu stór? Nei, við getum alveg deilt um það. En það er verið að mínu mati að stíga hér ákveðin skref sem ég tel jákvætt að séu tekin.

Við eigum að skoða í ríkara mæli hvernig við getum nýtt frekar norrænt og evrópskt samstarf til að samræma þessar reglur og það er m.a. Evrópusambandið að gera þessa dagana. Við sjáum að það er mismunandi álag á Evrópuríkjum og hvernig þau taka á móti flóttafólki og það er verið að reyna að jafna byrðarnar, m.a. innan ríkjanna, við mismikla hrifningu. En það er engu að síður verið að reyna að gera það, skerpa á reglum o.s.frv. Þetta skiptir allt máli í stóra samhenginu núna af því að þegar við samþykktum breytingar á útlendingalögunum fyrir rúmu ári síðan, þá vöruðum við í Viðreisn einmitt við þessu. Það var ekkert samtal, ekkert samstarf á milli flokka að neinu viti. Ekki var verið að beita sér fyrir því að ná sátt um þær breytingar. Og viti menn, sáttin náðist innan stjórnarflokkanna en korteri eftir að þær breytingar voru samþykktar þá voru velferðarráðherra og dómsmálaráðherra komnir í hár saman og það lágu fyrir þrjú lögfræðiálit frá þremur mismunandi ráðuneytum á því hvað lögin raunverulega þýddu.

Það er þetta sem ég hef ákveðnar áhyggjur af með breytingarnar núna sem liggja fyrir. Það eru ákveðnar breytingar sem ég tel alveg ágætar meðan það er sérstaklega ein breyting sem ég vil setja mikla fyrirvara við og hún varðar fjölskyldusameiningarnar. En það sem ég óttast er — af því að við þekkjum það alveg og því miður eftir að bréfið var sent um að þáverandi forsætisráðherra, eins og ég sagði, beitti sér fyrir því að allir flokkar myndu setjast niður þá voru ekki allir stjórnarandstöðuflokkar sem tóku vel í þetta eða aðrir flokkar sem tóku vel í þetta. En það var fólk úr öllum flokkum nema tveimur sem mætti, Flokkur fólksins og Miðflokkurinn voru ekki að mæta á þessa fundi en aðrir lögðu sig fram og það er virðingarvert og það er mikilvægt. Ég veit að bæði hæstv. dómsmálaráðherra og líka velferðarráðherra beittu sér fyrir því. En síðan hefur lítið gerst og þetta er afraksturinn að einhverju leyti. Þetta er mál, eins og ég segi, sem hægt er að taka vel undir en ég óttast það eftir að hafa hlustað á, burt séð frá stjórnarandstöðunni, en hlustað á stjórnarþingmenn, að við munum upplifa það sama eftir samþykkt þessa máls og af því að það er ekki nægilega mikið samtal á milli, það er ekki nægilega mikið samstarf, þá óttast ég að við stöndum frammi fyrir nákvæmlega því sama og eftir samþykkt síðasta máls. Stjórnarflokkarnir eru búnir að koma sér saman um ákveðna vegferð með ákveðna niðurstöðu, svo verður málið samþykkt, svo fer það í framkvæmd og þá fer allt í hund og kött og við upplifum aftur að dómsmálaráðherra og velferðarráðherra eða einhver þriðji ráðherra verða ekki sammála niðurstöðunni eða nálgun eða túlkun á lögunum.

Þetta segi ég bara af fenginni reynslu en kannski geta þingmenn hér inni sannfært mig um að það verði bara ein túlkun á öllum undanþágunum sem er verið að setja inn. Þá kemur líka að því sem ég tel svo mikilvægt í þessum málum, þ.e. ekki bara að við endurspeglum raunveruleika og setjum skynsemi inn í þetta og náttúrlega fyrst og síðast alltaf mannúðlega nálgun; ef við setjum ekki fram lög, og það gildir í þessum lögum eins og öllum öðrum, sem eru gegnsæ, eru skiljanleg og er samhljómur um að skilja á sama hátt, þá er ég hrædd um að við endum með nákvæmlega það sem hefur gerst m.a. í tengslum við útlendingamál. Við endum með tortryggni, öfgarnar og jaðrarnir í íslenskum stjórnmálum fara að leika sér að þessari óvissu, fara að spila á kenndir sem mér finnst mjög erfitt að upplifa. Þess vegna sendum við í Viðreisn þetta bréf til þáverandi forsætisráðherra af því að við viljum ná þessum samhljómi sem er dýrmætur fyrir hvert lýðræðislegt samfélag að ná í gegn.

Ég veit það af fulltrúa Viðreisnar í allsherjarnefnd að vinnan hefur verið góð en það er samt þannig, við sem erum hér í þinginu og hér á göngunum áttum okkur á því, að það er búið að vera möndl á milli stjórnarflokkanna um málefni útlendinga. Einn flokkurinn fær útlendingamálin, annar flokkurinn fær eitthvað annað, við skulum bara segja hlutina eins og þeir eru. En hver er niðurstaðan í þessu máli? Ég tel og tek undir þá nálgun að það eigi að reyna að samræma sem mest regluverk. Við hljótum að gera það. Við erum ekki bara á Schengen-svæðinu, við sem viljum alþjóðasamskipti hljótum að vilja líka almenna samræmingu á regluverki. Jú, meira að segja innan Norðurlandanna eru einhverjir núansar, einhver tilbrigði við stef, en ég tel mikilvægt að við tökum skrefin í átt að því sem til að mynda Noregur hefur verið að gera. Ég hef sagt það áður.

Við þurfum gegnsætt kerfi. Við megum ekki byggja upp kerfi sem er háð því hver situr í ráðherrastól hverju sinni eða eftir því hvaða hópar eða einstaklingar sem leita hingað til landsins eru best tengdir líka hverju sinni. Mér hefur þótt of mikið af því að það skapast þrýstingur eftir því hvaða mál er tekið upp hverju sinni og ýtt í gegn. Mér finnst enginn bragur á því heldur. Ég vil að það gildi almenn löggjöf sem felur í sér jafnvægi og jafnan rétt, jafnan rétt á milli einstaklinga. Mér finnst það skipta máli. Mér finnst náttúrlega skipta mestu máli og ég hef sagt það og ítrekað mína afstöðu að ég er tilbúin í mjög marga þætti til að ná samhljómi um útlendingamálin en ég dreg línu í sandinn þegar kemur að börnum. Ég verð að fá að vita það að réttindi barna séu virt í gegnum allar þær breytingar sem eru settar fram í þessu og að við virðum líka alþjóðasáttmála, hvort sem það eru mannréttindasamningar sem við erum aðilar að eða samningar eins og samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Allt þetta skiptir máli.

En það skiptir líka máli, og við í Viðreisn höfum dregið það fram að við erum mjög gagnrýnin á fjármálaáætlunina, að það er enginn þáttur sem er undanskilinn hagræðingu í ríkisrekstri, enginn þáttur sem er undanskilinn því að við viljum skilvirkara kerfi. Þýðir það ómennskara kerfi? Nei. Ef við höfum sýnina, leiðsögnina og forystuna um það að við viljum byggja upp samfélag sem tekur vel á móti fólki þá verðum við líka að hafa reglurnar í lagi. Það verður að vera þannig að við nýtum fjármagnið betur. Það hvernig þessi útgjaldaflokkur hefur þanist út er að mínu viti vitnisburður um að það eru ekki nægilega sterk tök á málaflokknum. Sami flokkurinn hefur meira og minna stjórnað þessum málaflokki í tíu, ellefu ár og það er sami flokkur og kvartar mest undan einhverri óreiðu. Það segir mér bara að það hefur þurft betri, skarpari og skýrari leiðsögn, forystu og stjórnun á þessu. Það hefur skort.

Ég vil hins vegar virða það við hæstv. dómsmálaráðherra að mér finnst hún hafa nálgast þessa hluti aðeins með öðrum hætti og það skiptir máli, sem hefur verið sagt hér fyrr í dag, hvernig hlutir eru orðaðir. Það skiptir gríðarlega miklu máli og ég tel að hæstv. ráðherra hafi nálgast þetta verkefni af virðingu og raunsæi en líka af mannúð. Það skiptir líka máli, og hv. þingmaður Sigmar Guðmundsson kom inn á það, hvernig forystufólk í stjórnmálum nálgast hlutina og segir hlutina. Mér finnst, og ég held ég hafi sagt það við 1. umræðu í þessu máli, vont að upplifa það að foreldrar barna af erlendum uppruna og börn sem eru kannski með dekkri húðlit en ég eða þeir sem eru núna í þessum þingsal, eru að upplifa breytingu á viðhorfi innan skólanna, þá meðal nemenda, og í íþróttafélögum. Það er kannski ekki eins og það sé skotleyfi en mörkin eru að breytast. Það er að gerast m.a. vegna tilstuðlan orðræðunnar sem kemur úr þinginu og af hálfu stjórnmálafólks og ég vil vara við þessu. Þarna liggur gríðarleg ábyrgð hjá okkur sem erum í stjórnmálum, að kynda ekki undir þetta.

Það sem flestir hafa verið að tala um og vara sérstaklega við er að skella skuldinni á fámennan hóp flóttafólks vegna þess að það er mikið álag á innviði, ekki síst á skólana og heilbrigðiskerfið. Það er bara ekki sanngjarnt. Miklu frekar — og ég held ég hafi getið þess í bréfinu á sínum tíma sem ég sendi til forsætisráðherra — er alveg ljóst að náttúruleg fjölgun okkar Íslendinga stendur bara undir 0,5% hagvexti. Við þurfum útlendinga til að standa undir íslensku samfélagi en það er eins og ríkisstjórnir síðustu ára, m.a. með Sjálfstæðisflokkinn í flestum þeirra, hafi ekki verið tilbúnar, hafi ekki verið í startholunum, hafi ekki verið á undan í því að byggja upp innviði sem gætu raunverulega tekið ekki bara utan um okkur sem höfum búið hér heldur líka utan um það fólk sem kemur til þess að hjálpa okkur að auka lífsgæði hér á Íslandi, líka fólk sem vill búa hér á grundvelli m.a. EES-samningsins og nýta það frelsi sem hann gefur. Ríkisstjórnum síðustu ára hefur að einhverju leyti mistekist að byggja upp þá innviði.

Ég vil sérstaklega tala um það, nú tala margir um inngildingu, að eitt stærsta verkefnið í íslensku samfélagi er að taka betur utan um fólk sem hingað kemur og skoða hvernig við getum hjálpað því að verða sem fyrst þátttakendur í íslensku samfélagi. Ég hef verulegar áhyggjur af því eftir að hafa heimsótt skóla. Við í Viðreisn fórum sérstaklega í skólakerfið, heimsóttum skóla, leik-, grunn- og framhaldsskóla, háskóla líka, og tókum mörg samtöl við skólafólk. Þar er mikið álag og það er ekki bara út af útlendingum. Það vantar stuðning við skólakerfið. Það er metnaður hjá kennurum, metnaður hjá skólafólki að sinna ólíkum hópum og það er ekki að fá þann stuðning sem það þarf á að halda. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu. Við sjáum anga af því hvert þetta er að þróast með niðurstöðum í PISA. Við sjáum fram á aukna stéttskiptingu og sjáum að börn af erlendum uppruna eru að verða meira afskipt innan skólakerfisins. Það er ekki skólafólkinu að kenna heldur okkur, ríkisstjórninni, m.a. að kenna að við höfum ekki komið með þau tæki og tól sem skólasamfélagið þarf verulega á að halda. Það þýðir ekki lengur að tala bara um skólafólkið. Það þarf að tala við skólafólkið og það þarf að hlusta á það. Það þarf að gera mun betur þar og þetta er hluti af því sem ég tel að við þurfum að taka mun skarpara á. En við undirstrikum það og gætum allrar sanngirni í því að það er margt verið að gera gott og nú síðast var nýja stofnunin um menntamál sem tekur við af Menntamálastofnun að stíga mjög áhugaverð og sterk fyrstu skref.

En aftur að þessu máli. Ég vil undirstrika aftur að það er gott að taka þessi skref í átt að samræmingu við nágrannaþjóðirnar. Ég tel áhugaverða breytingartillöguna frá Samfylkingunni varðandi 2. mgr. 36. gr., ég tel það áhugaverða leið og ég vil hvetja meiri hlutann hér á þingi að taka undir þá breytingu um að fara úr sérstökum ástæðum yfir í sérstök tengsl eins og Norðmenn gera. Það gefur tilefni til þess að matskenndar ákvarðanir verði færri og að ákvarðanir verði einfaldlega teknar út frá hlutlægum mælikvarða og ég tel það skipta máli. Mér finnst það áhugaverð breytingartillaga og ég er alveg sannfærð um að ef samtalið hefði verið meira á milli flokka þá hefði verið hægt að ná m.a. samkomulagi um þessa niðurstöðu.

Það er alveg ljóst að Vinstri græn hafa haft veruleg áhrif á málið. Þó að það sé ákveðið möndl á milli flokka og við vitum það þá sé ég ákveðnar breytingar frá því að málið var lagt fram fyrst í samráðsgátt sem segir mér að einn eða jafnvel tveir stjórnarflokkar, Framsókn og Vinstri græn, hafa náð ákveðnum skynsamlegum og mannúðlegum breytingum á þessu máli. En í heildina tekið þá vil ég undirstrika að ég set verulegan fyrirvara við fjölskyldusameiningarnar og það sem verið er að draga fram þar. Ég get komið að því seinna í annarri ræðu en á annað mun ég líta frekar jákvæðum augum og skoða vel fram að atkvæðagreiðslu.