154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[21:22]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Forseti. Það er ánægjulegt að koma á eftir hv. formanni Viðreisnar, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, því margt af því sem hún sagði hér úr ræðustól eru hlutir sem ég get svo sannarlega tekið undir; mannúðlegt, skilvirkt kerfi sem uppfyllir alþjóðareglur. En því miður er það eins og hv. þingmaður benti á að ellefu ár í dómsmálaráðuneytinu virðast ekki gera Sjálfstæðisflokknum kleift að fylgja jafnvel eigin hugsun um það að reyna að draga úr kostnaði og auka skilvirkni. En það er athyglisvert að horfa á þessa þróun og við sáum að í fyrra var verið að gera ýmsar breytingar sem á eftir að koma að mínu mati í ljós að fóru hreinlega gegn alþjóðasamningum og stjórnarskrá. Við erum kannski ekki að ganga eins langt hér en ég tel að það sé fullt í þessu frumvarpi sem muni orsaka verri skilvirkni og aukinn kostnað fyrir ríkissjóð, svo ekki sé talað um að sjálfsögðu fjölskyldusameininguna, sem er bara hreint og klárt ógeðsverk í mínum huga. En ég skal ræða það betur á eftir.

Ef við horfum á skilvirkni og kostnað þá langar mig bara að taka eitt dæmi úr þessu frumvarpi og það hefur að gera með 11. gr. þessa frumvarps. Það er nefnilega þannig í dag að í 77. gr. laga um útlendinga er fjallað um bráðabirgðadvalarleyfi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem veitir leyfishafa rétt til atvinnuþátttöku á meðan umsókn er til meðferðar, eða a.m.k. í einhvern tíma á meðan umsóknin er til meðferðar. Veiting þessa leyfis gerir nefnilega umsækjendunum kleift að standa meira á eigin fótum en þau gera í dag á meðan þau bíða eftir niðurstöðunni í sínu máli. Þannig greiða þau sjálf fyrir leiguhúsnæði á almennum markaði og önnur hefðbundin útgjöld með laununum sínum og eru þar af leiðandi ekki, eins og sumir hafa orðað það, á spena ríkisins, á meðan þetta gerist. Þetta fá þau alveg þangað til ákvörðun Útlendingastofnunar er birt.

Vandamálið í þessu er það að eftir að ákvörðunin er birt fara flest þessi mál í kæruferli. Það kæruferli getur stundum tekið allt að heilt ár og jafnvel lengur. Á meðan má fólkið ekki vinna heldur er aftur komið á kostnað Vinnumálastofnunar. Þarna væri hægt að gera einfalda breytingu, leyfa fólkinu að vinna þar til úrskurður kærunefndarinnar er kominn og þá yrði mun lægri kostnaður. Bara dæmi. Enginn hugsar um þetta. Nei, í staðinn er verið að takmarka það að fólk geti verið að vinna og þar af leiðandi verið að takmarka að fólk geti verið hér án þess að það sé á kostnað ríkisins. Ég skil ekki hvernig þetta getur verið bætt skilvirkni.

Það hefur verið mikið rætt um það að horfa til Norðurlanda, samræma við Norðurlönd en í þeirri umræðu virðist í engu vera tekið tillit til þess að skoða hvaða áhrif þær breytingar sem voru gerðar á Norðurlöndunum hafa haft á skilvirkni. Sumt af því hefur meira að segja gert hlutina flóknari. Hér er t.d. verið að stytta tímann sem leyfi gilda þannig að það þarf að endurnýja leyfin á hverju ári. Aftur: Hvernig skilar það skilvirkni?

Áður en ég fer að tala um fjölskyldusameiningu þá langaði mig líka að fjalla um þetta sem við heyrum hér endalaust; álagið á skólana, álagið á heilbrigðiskerfið, álagið á alla krítísku innviðina. Þá langar mig fyrst að minna fólk á að hingað eru að koma örfáar þúsundir hælisleitenda á meðan hér búa tugir þúsunda innflytjenda. Þetta er alltaf sett í sama kassann. Við heyrðum áðan að á Reykjanesi væri vandamál í skólunum af því það væri svo mikið af innflytjendum og það væru allt saman hælisleitendur. Nei, vitið þið að það er bara fullt af fólki frá Evrópska efnahagssvæðinu, frá Bandaríkjunum og frá öðrum löndum sem hefur komið hér ekki sem hælisleitendur sem já, er að búa til það vandamál í skólanum að þar eru börn að koma með annað tungumál. En það eru ekki bara hælisleitendur. Við þurfum að passa okkur í umræðunni að við séum ekki alltaf að taka þennan hóp og kenna honum um allt sem gerist.

Við fengum bréf um daginn frá sveitarfélagi á Suðausturlandi sem kvartaði yfir því að allir innviðir þar væru miðaðir við hve margir íbúar væru þar. Þar væru 4.000 íbúar en það væru 5.000 hótelherbergi sem þýðir á góðum sumardegi núna í sumar verður tvöfaldur íbúafjöldi þarna og heilbrigðiskerfið á staðnum, löggæslan á staðnum, öll opinber þjónusta á staðnum er miðuð við hvað það eru margir íbúar þar. Þannig að já, það er ekki bara að við séum með tugi þúsunda innflytjenda sem búa hér, sem mega búa hér út af Evrópska efnahagssvæðinu eða hafa fengið hér dvalarleyfi af öðrum ástæðum, t.d. til að vinna, heldur erum við með yfir milljón túrista sem koma hingað. Ferðamenn setja líka álag á kerfið okkar. Það er mjög mikilvægt sérstaklega að við sem hér í þessum sal sitjum pössum okkur hvernig við tölum um slíkt vegna þess að þegar við setjum þetta allt á einhvern lítinn hóp og kennum honum um ölum við upp andúð og ölum upp skautun sem er einungis að gera illt fyrir þetta samfélag.

Mig langar að enda á því sem ég tel vera ómannúðlegasta kafla þessa frumvarps. Það eru breytingar á reglum um fjölskyldusameiningar. Við notum þetta orð, fjölskyldusameining. Það hljómar eins og fallegt tækniorð frá hinu opinbera en það sem við erum að meina þegar við segjum fjölskyldusameining er það að aðili sem hingað er kominn geti fengið að vera með sín börn og maka og já, í einstaka undantekningartilvikum aldraða foreldra. Mér er spurn: Hversu margir hv. þingmenn hér inni myndu vilja hafa einhverja takmörkun á því hvort makar þeirra eða börn mættu koma þangað sem þau eru? Það er nákvæmlega það sem við erum að gera. Kannski vilja sumir vera í burtu frá mökum sínum en ég veit að allir vilja hafa börnin sín nálægt sér og við erum að stoppa það af með þessum breytingum. Þetta eru ekki bara einhverjar tölur, þetta er ekki bara eitthvert hugtak, fjölskyldusameining. Þetta eru börn sem er verið að neita um að vera hjá foreldrum sínum. Það er brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, hreint og klárt, þar sem barnið hefur rétt á því að vera hjá foreldrum sínum. Það að við skulum vera að gera hér breytingar sem halda börnum frá foreldrum sínum er það ómannúðlegasta sem ég sé að við höfum gert hér á þessu þingi.