154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[21:37]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég er innilega sammála honum í því að við eigum að uppfylla lágmarkskröfurnar. Þar erum við sammála og það er mikilvægt að við gerum það. En mig langar að benda á samning Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttafólks frá 1951. Það kemur beinlínis fram að Sameinuðu þjóðirnar álíta, með leyfi forseta, „að það geti lagt óhæfilega þungar byrðar á einstök lönd að veita mönnum griðland, og að viðunandi lausn vandamáls, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa viðurkennt að sé alþjóðlegt að eðli og umfangi, fáist því ekki án samvinnu þjóða milli“. Ég fullyrði það að byrðar Íslands eru þyngri en annarra ríkja vegna þess að við erum að taka á móti svo mörgum flóttamönnum miðað við höfðatölu. Það getur vel verið að við séum með heimsmet á mörgum sviðum en þetta er ekki svið sem við ráðum við. Ég er líka á því að Reykjanes hafi axlað óeðlilega miklar byrðar miðað við önnur sveitarfélög í landinu, líka Hafnarfjörður. Það ætti að dreifa fólki betur eins og í Noregi, þeir dreifa fólkinu mjög mikið á vesturströndina og það dreifir byrðunum. En það er gott að við séum sammála. En varðandi samábyrgðina þá vil ég endurtaka spurninguna: Er ekki eðlilegt að byrðar Íslands minnki hvað þetta varðar og við fækkum umsóknum eða reynum að stuðla að því að þær verði færri í framtíðinni en þær hafa verið? Og varðandi Úkraínu þá vorum við hlutfallslega í þriðja sæti og það var án Úkraínu. Við erum einangruð eyja í Norður-Atlantshafi og það mun hafa gríðarlega pólitískar afleiðingar ef okkur tekst ekki að afgreiða þetta sem allra fyrst og fá víðtæka sátt um þetta mál. Ég er algerlega sammála því (Forseti hringir.) að sáttin liggur klárlega í því að við eigum að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Það þýðir að vera ekki með sérreglurnar.

Það leiðir mig að hinni spurningunni: Er ekki rétt að við afnemum sérreglur okkar, t.d. 2. mgr. 6. gr., (Forseti hringir.) um að veita vernd í annað sinn og líka varðandi fjölskyldusameiningar sem eru öðruvísi en t.d. í Danmörku?

(Forseti (ÁsF): Ég minni ræðumenn á ræðutímann.)