154. löggjafarþing — 114. fundur,  17. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[13:11]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér kemur til atkvæða mjög mikilvægt mál sem er jákvætt að þingið sé komið með þetta langt í störfum Alþingis. Ég þakka nefndinni fyrir vel unnin störf. Við höfum skuldað þjóðinni svör um þennan málaflokk vegna þess að hann hefur í kostnaði farið upp úr þakinu. Það er óásættanlegt. Stjórnkerfið okkar hefur verið undir gríðarlegu álagi og við getum einfaldlega gert betur. Hér eru komin svör við sumum af þessum áskorunum.

Við erum já, að samræma löggjöfina því sem gerist annars staðar. Danir eru hér nefndir til sögunnar. Þeir hafa náð mestum árangri í því að draga úr álagi á landamærin af Norðurlöndunum. Við erum líka að byggja á eigin reynslu og það er gríðarlega jákvæð breyting að þeir fái ekki efnismeðferð sem eru þegar komnir með vernd í öðru landi. Það er löngu tímabært. Þetta er liður í stærri aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir. Við höfum kynnt heildarstefnu og (Forseti hringir.) á landamærunum er sömuleiðis verið að auka eftirlit, eins og dómsmálaráðherra hefur gert grein fyrir. (Forseti hringir.) Frávísanir eru miklu fleiri í ár en þær voru í fyrra og þá var þó sett met. Þannig að við erum að taka stjórn á viðkvæmum málaflokki og ætlum að gera það vel.