154. löggjafarþing — 114. fundur,  17. maí 2024.

meðferð sakamála, meðferð einkamála, gjaldþrotaskipti o.fl.

691. mál
[14:48]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í þessu máli er fjallað um rafræna birtingu ákæru, rafrænt þinghald og fleira. Við meðferð þessa máls var t.d. fjallað um stefnubirtingar og annað slíkt sem við töldum ekki vera heimilt að gera rafrænt. En það er reglugerð frá fjármálaráðuneytinu sem heimilar það. Það er til reglugerð sem fjármálaráðherra setti vegna laga um stafrænt pósthólf. Við vöktum athygli á þessu og dómsmálaráðuneytið virðist ekki hafa vitað af þessari heimild. Dómsmálaráðuneytið hefur farið fram á það við fjármálaráðuneytið að þessi heimild verði ekki nýtt, enda myndi hún fara í bága við lög um meðferð einkamála, um birtingu stefna. Ég tel eðlilegt í framtíðinni að Alþingi móti stefnu hvað varðar rafræna birtingu stefnu í einkamálum. En það að fjármálaráðuneytið skuli hafa farið út fyrir forsetaúrskurð sinn með þessum hætti og sett reglugerð um rafræna birtingu stefna og innheimtuaðgerða með vísan til 24. gr. b laga um lögmenn, það er ekki rétt. Það ætti í rauninni að leita ógildingar fyrir dómi og ég skora á fjármálaráðherra að skoða þessa reglugerð, endurskoða hana og nema hana úr gildi, alla vega þann lið sem lýtur að 24. gr. b laga um lögmenn.