154. löggjafarþing — 114. fundur,  17. maí 2024.

innviðir markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni.

914. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um innviði markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Engar umsagnir bárust nefndinni við umfjöllun málsins.

Með frumvarpinu er innleitt inn í íslenskan rétt ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins, ESB, ?2022/858?um tilraunaregluverk fyrr innviði markaða sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni og um breytingu á reglugerðum ESB nr. 600/2014 og nr. 909/2014 og tilskipun?2014/65/ESB?sem gengið hefur undir heitinu DFT-reglugerðin.

DFT-reglugerðin gildir um fjármálaþjónustu, nánar tiltekið viðskipti með fjármálagerninga á grundvelli dreifðrar færsluskrártækni. Reglugerðin er sameiginlegt tilraunaregluverk vegna markaðsinnviða sem byggjast á umræddri tækni. Frumvarpið veitir innlendum aðilum á fjármálamarkaði sömu tækifæri og bjóðast öðrum á Evrópska efnahagssvæðinu til nýbreytni og framþróunar á sviði viðskipta með fjármálagerninga á grundvelli dreifðrar færsluskrártækni og við uppgjör slíkra viðskipta.

Meiri hlutinn leggur til tæknilegar breytingar sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif á málið.

Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Á eftir orðunum „frá 5. júlí 2023“ í 1. mgr. 2. gr. komi: sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 26 frá 21. mars 2024, bls. 12.

2. Í stað „6. mgr. 10. gr.“ í 3. tölul. 7. gr. komi: 4. mgr. 10. gr.

3. Við 2. tölul. 9. gr.

a. Í stað „verðbréfa“ í inngangsmálslið komi: fjármálagerninga.

b. B-liður orðist svo: Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist: með breytingum skv. 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2022/858 um tilraunaregluverk fyrir innviði markaða sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni og um breytingu á reglugerðum (ESB) nr. 600/2014 og (ESB) nr. 909/2014 og tilskipun 2014/65/ESB, sem er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 92 frá 20. desember 2023, bls. 160–192.

Undir nefndarálitið skrifar sá sem hér stendur ásamt hv. þingmönnum Teiti Birni Einarssyni, Jóhanni Friðrik Friðrikssyni, Diljá Mist Einarsdóttur, Guðbrandi Einarssyni, Oddnýju G. Harðardóttur og Steinunni Þóru Árnadóttur.

Ég hef lokið yfirferð minni um þetta tiltekna mál, hæstv. forseti.