154. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2024.

rekstur lögreglu á Íslandi.

[15:07]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Það er óstjórn í efnahagsmálum sem þessi ríkisstjórn hefur leitt yfir land og þjóð. Þetta blasir við frá degi til dags í heimilisbókhaldinu hjá stórum hluta landsmanna. En það er líka önnur hlið á efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins sem er að koma betur og betur í ljós yfir lengri tíma og snýr að getu til að standa undir grunnhlutverki ríkisvaldsins. Löggæsla á Íslandi er farin að líða verulega fyrir stjórnarstefnu hæstv. forsætisráðherra. Ár eftir ár horfum við upp á versnandi stöðu þegar kemur að rekstri lögreglu, fangelsa og dómstóla, svo ekki sé minnst á Landhelgisgæsluna. Þetta er staðan eftir tíu ár í fjármála- og dómsmálaráðuneytum Sjálfstæðisflokksins. Hver er málsvörn hæstv. forsætisráðherra og hvernig stendur á því að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar felur ekki í sér neina stefnubreytingu á þessu sviði heldur sé þar þvert á móti fyrst og fremst frekari niðurskurður og áfram aðhaldskrafa á lögregluna?

Með leyfi forseta:

„Um stöðu lögreglunnar má segja að þar brenni nær allir endar.“

Þetta stendur í umsögn Félags yfirlögregluþjóna við fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar. Þar kemur fram að fjöldi lögreglumanna á Íslandi sé svipaður og árið 1990, fyrir rúmum 30 árum, þrátt fyrir 60% fólksfjölgun og gríðarlega fjölgun ferðamanna. Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra kemur fram að um þriðjungur lögreglumanna upplifir sig mjög eða frekar óörugga í starfi. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er það meðvituð stefna ríkisstjórnarinnar að það séu færri og færri lögreglumenn á Íslandi miðað við fólksfjölda og þar með minna sýnileg lögregla sem getur aðeins sinnt allra erfiðustu og hörðustu málunum, því að þetta er sú stefna sem hefur verið rekin í landinu síðustu tíu ár? Var það viljandi eða eru þetta mistök?