154. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2024.

rekstur lögreglu á Íslandi.

[15:12]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Líkt og hæstv. ráðherra kom inn á hér áðan þá hefur verkefnunum vissulega fjölgað en það er verið, eins og kom líka hér fram, að millifæra úr útkallslögreglu í þessi sérverkefni og við erum á þeim stað, líka í þessum sérverkefnum, að það er verið að tala um að það sé bara hægt að sinna þeim málum sem garga hæst. Ég velti því fyrir mér hvað það er raunverulega sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórn hans ætlar að gera í þessum málum því að hér er talað um að það hafi verið hækkuð laun og styttar vaktir. Hver tók þessa ákvörðun um að hækka þessi laun og stytta þessar vakti sem hafði umræddar afleiðingar? Nú er það svo að það eru bara 20 lögreglumenn á vakt að jafnaði á öllu höfuðborgarsvæðinu en árið 2007 voru 20 á vakt, bara hérna innan borgarmarkanna. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvað ætlar hann að gera í málinu? Ætlar hann að afnema aðhaldskröfuna sem mun falla til á tímabili fjármálaáætlunar, sem ríkisstjórn hans lagði fram, eða ætlar hann að halda áfram að tala um að það þurfi að gera betur eins og valdið sé ekki raunverulega í hans höndum?