154. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2024.

lækkun verðbólgu og vaxta.

[15:25]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg viss hvort hv. þingmaður var að gefa í skyn að ríkisstjórnin hefði átt að vera búin að ná frekari lækkun verðbólgunnar. Ég efast um að það geti verið alvara að baki slíku. En þegar við segjum að við ætlum að standa þannig að málum að það geti stutt við lækkun verðbólgunnar þá ætlum við að halda við okkar plön um að vera áfram með batnandi afkomu ríkissjóðs. Með batnandi afkomu ríkissjóðs þar sem útgjaldahliðin vex hægar en verðmætasköpunin í landinu þá erum við að vinna okkur í átt að markmiðinu sem er að heildarafkoma ríkissjóðs verði í jafnvægi. Það er þannig sem við eigum að gera þetta. Því er nú ekki haldið fram við vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar Seðlabankans að verkefni nefndarinnar sé svo erfitt út af fjármálaáætluninni, eða hafa menn einhvers staðar séð það skrifað út? Það eru ekki ríkisfjármálin sem eru meginþröskuldurinn í vegi fyrir ákvörðunum nefndarinnar. Það er hins vegar talsverð spenna í íslenska hagkerfinu og sú spenna leiðir auðvitað að langmestu leyti af því að við höfum verið að hækka laun mjög hressilega yfir langan tíma. Þess vegna hefur kaupmátturinn, sem hv. þingmaður nefnir hér sérstaklega, vaxið meira á Íslandi undanfarin ár heldur en í öðrum löndum. Og ef við skoðum sérstaklega kaupmátt þeirra sem eru í lægri tekið endanum þá hefur okkur í gegnum verðbólgutímann og í gegnum þennan erfiða tíma eftir heimsfaraldur og síðan stríðsátök betur tekist að verja kaupmátt lægst launuðu stéttanna heldur en í öðrum löndum. Okkur hefur tekist það betur. Þar hefur kaupmátturinn beinlínis rýrnað. Þegar síðan er talað um háskólamenntaða — já, þegar við leggjum sérstaka áherslu í gegnum frjálsa samninga á vinnumarkaði á hækkun lægstu launa þá er ekki (Forseti hringir.) við því að búast að það verði annað heldur en hlutfallsleg breyting á milli þess hversu mikið kaupmátturinn vex hjá einstaka öðrum hópum.