154. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2024.

lækkun verðbólgu og vaxta.

[15:29]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gaf fjármálaáætluninni ágætiseinkunn í nýlegri heimsókn sinni til Íslands. Það er ekkert annað sanngjarnt hægt að segja um umsögn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en að áætlunin hafi bara fengið ágætiseinkunn. Þegar við teiknum upp langtímaáætlun og við sýnum fram á það að útgjaldastig ríkisins muni fara lækkandi sem hlutfall af landsframleiðslu, að útgjöldin vaxi hægar en verðmætasköpunin, þá erum við að gera nákvæmlega það sem hv. þingmaður er að biðja um; að sýna fram á að við ætlum að beita ríkisfjármálunum þannig að Seðlabankinn sé að fá stuðning og frið til að ná tökum á verðbólgunni. Það er nákvæmlega það sem við erum að gera. Nú er það þannig að ég lagði fyrir þingið á sínum tíma, og það var samþykkt, að setja fjármálareglur og við eigum auðvitað að leggja allt kapp á það að þær verði aftur teknar upp eins og við höfum stefnt að og stendur til að gera. En það er hins vegar misskilningur að í hvert sinn sem ríkissjóður er rekinn með halla þá sé mikil vá fyrir dyrum. Stundum er allt í lagi að ríkissjóður sé tímabundið (Forseti hringir.) rekinn í halla og það sem við sjáum að er að gagnast okkar hagkerfi langbest er að ríkisstjórnin kunni að skapa hagvöxt. Það verður ekki annað sagt um þessa ríkisstjórn en að hagvöxtur undanfarinna ára hafi verið verulegur og sé að hjálpa til við að skapa góð lífskjör. (ÞKG: Tíu ár eru nú ansi …)