154. löggjafarþing — 116. fundur,  4. júní 2024.

frjálst flæði ópersónugreinanlegra gagna.

912. mál
[22:41]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Það er einmitt vandamálið með innleiðingarmál á borð við þetta að það er svolítið eins og það sé jafnvel ekki talin þörf á umræðu um þau, kannski akkúrat vegna þess að fólk álítur ekkert endilega að við höfum neitt um þau að segja á þessu stigi. Það er auðvitað rétt upp að vissu marki en rangt að mörgu leyti.

Mig langar aðeins að halda áfram á þeim nótum sem hv. þingmaður var í ræðu sinni. Þó að það snerti kannski ekki beinlínis efnisatriði frumvarpsins þá gerir það samt það að því leytinu til að þarna er verið að samræma löggjöf innan EES-svæðisins og í rauninni er engin umræða sem fer fram um þessa breytingu hér á landi.

Mig langar til að beina spurningu til hv. þingmanns sem tengist kannski að einhverju leyti áhuga hans á inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Ég hef sjálf persónulega ekki verið neitt sérstaklega spennt fyrir inngöngu í Evrópusambandið. Það er nú bara vegna þess að ég hef ekki endilega verið sammála því sem Evrópusambandið er að gera á öðrum sviðum heldur en þeim er tengjast EES-samstarfinu, sem ég tel að sé gríðarlega farsælt samstarf og mjög mikilvægt, bæði okkur og þeim, og mér finnst nú bara að EES-samstarfið ætti að ná yfir allan heiminn. Það væri náttúrlega bara draumastaða. En við lifum kannski ekki alveg í þeirri útópíu eins og staðan er, eða mögulega nokkurn tímann.

Það sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann um er varðandi það sem ég ætla að leyfa mér að kalla áhugaleysi þjóðarinnar, mögulega þingmanna, án þess að vera svo sem að saka einhverja tiltekna einstaklinga um áhugaleysi umfram aðra. Ég held að það sé kannski sameiginlegt áhugaleysi á innleiðingarmálum eins og þau eru kölluð. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að áhugi íslenskra þingmanna og almennings jafnvel (Forseti hringir.) fyrir löggjöf sem Evrópusambandið setur og myndi þá bara hreinlega vera bindandi fyrir okkur, að hann myndi aukast eða minnka við inngöngu okkar í Evrópusambandið?