154. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2024.

innviðir markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni.

914. mál
[22:17]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Eins og komið hefur fram hér í umræðunni þá erum við Píratar jákvæð gagnvart þessu máli, mjög jákvæð jafnvel. Með þessu frumvarpi er stigið mjög mikilvægt skref til að tryggja að löggjöfin standi ekki í vegi fyrir nýsköpun og hér erum við sérstaklega að tala um nýsköpun sem nýtir dreifða færsluskrártækni eins og hefur komið fram. Það er nefnilega ekki nóg með að það þurfi að styðja við nýsköpun heldur eru í okkar löggjöf og okkar kerfum fjölmargar hindranir gjarnan fyrir nýsköpun og auðvitað mjög mikilvægt að fjarlægja þær eftir því sem við rekumst á þær, því fyrr því betra.

Við stöndum á tímamótum í fjármálaheiminum eins og kannski víðar þar sem ný tækni er að breyta leikreglunum. Í þessu tilviki er það þessi dreifða færsluskrártækni og svokallaðar bálkakeðjur, sem er orð sem ég var nú bara að læra nýlega. Því miður er það enn þá svolítið svoleiðis að í þessu tæknimáli öllu saman og þessum tölvuheimi þá erum við enn þá svolítið gjörn á að sletta á ensku og kannski ekki búið að þýða öll hugtök með samræmdum hætti og það er nú kannski eitt sem er jákvætt við það þegar við erum að taka upp svona löggjöf sem tekur á nýrri tækni og öðru, þá þurfum við að gjöra svo vel og finna góð íslensk orð yfir hin ensku, yfir hin nýju tæknihugtök. Þessi tækni, þessi dreifða færsluskrártækni, á ensku „distributed ledger technology“, með leyfi forseta, sem ég held að fleiri áhorfendur kannski kannist við heldur en þessa íslensku þýðingu, tryggir að færsla sé skráð á öruggan og óumbreytanlegan hátt á marga staði, marga hýsla samtímis í netinu. Þá erum við að tala um margar tölvur. Þetta þýðir, og það er það sem er nýtt við þessa tækni og mikilvægt og lykilatriði, að það er ekki hægt að breyta eða eyða upplýsingum sem eru þarna í þessu neti án þess að samþykki sé fyrir hendi frá meiri hluta þátttakenda. Þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægt til þess að gera ferli örugg og gagnsæ þegar við erum að reyna að afnema einhvers konar miðlægan stjórnanda gagnanna eins og er kannski víðar. Þetta hljómar auðvitað svolítið torskiljanlegt. Ég játa það sjálf að ég átti erfitt með að skilja þessa tækni þegar ég kynntist henni fyrst og skildi svo sem ekki af hverju talað var um tækni, ég hugsaði með mér: Getur ekki eitthvert forrit bara gert svona, erum við ekki bara að tala um nýtt forrit? En það sem er nýtt við þessa tækni og ástæðan fyrir því að við tölum um nýja tækni er sú að það er ákveðin hugbúnaðartækni notuð til þess að tryggja þennan varanleika, að það sé ekki hægt að breyta gögnunum nema með samþykki allra. Þekktasta birtingarmynd þessarar tækni eða nýtingu hennar, held ég, í almennri umræðu og daglegu tali eru rafmyntir eins og hefur komið hérna fram. Rafmyntir eru náttúrlega bara ein tegund af vöru sem byggir á þessari tækni. En það eru ekki einu nýtingarmöguleikarnir. Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið mun fela í sér nýmæli og veita innlendum aðilum sömu tækifæri og öðrum á Evrópska efnahagssvæðinu til nýbreytni og framþróunar á sviði viðskipta með DFT-fjármálagerninga“ — þ.e. gerninga sem byggja á þessari dreifðu færsluskrártækni, maður þarf að rifja upp orðið aftur og aftur — „og við uppgjör slíkra viðskipta. Nokkur áhugi mun vera á DFTR“ — skammstöfunin fyrir þessa dreifðu færsluskrártækni og fjármálagerninga — á meginlandi Evrópu, en óljóst er hvort áhugi og/eða forsendur reynast til nýtingar dreifðrar færsluskrártækni í þessu samhengi hér á landi.“

Hér lýkur tilvitnun með fjölmörgum innskotum, ég veit ekki hvernig þetta verður útfært í talgreininum og þeim sem vinna með hann, þessi þörf mín fyrir að skjóta inn innskotum í beinar tilvitnanir. En ég held einmitt að þótt óvíst sé með fjármálamarkaðinn og þessi viðskipti með fjármálagerninga byggða á þessari tækni hér á landi þá er hins vegar auðvelt að ímynda sér önnur svið þar sem dreifð færsluskrátækni getur orðið alger leikbreytir eða „game changer“, eins og sagt er á engilsaxneskunni, með leyfi forseta.

Eitt það fyrsta sem kemur upp í hugann eru vitanlega mikilvæg svið sem varða mikla hagsmuni okkar, ekki fjármálagerninga heldur t.d. eftirlit með úthlutun og nýtingu aflaheimilda á makríl. Það er auðvitað mál sem er okkur Íslendingum mikið hagsmunamál og varðar einmitt aðstæður þar sem treysta þarf á að upplýsingum sé ekki breytt og enn síður að þeim sé eytt í ferðalögum sínum á milli kerfa og á milli landa. Sömuleiðis þarf það að vera þannig, þar sem við erum með aðila sem greinir á og eru að reyna að starfa saman, að þetta sé ekki háð tilteknum miðlægum aðila eða hýsli.

Eins og áður segir og kemur fram í frumvarpinu er hugsanlegur ávinningur af dreifðri færsluskrártækni langt umfram rafmyntir og langt umfram makrílinn. Í fjármálageiranum erum við að sjá hvernig tækni getur breytt öllu, frá tryggingum til eignastýringar. Með því að nota dreifðar færsluskrár geta tryggingafélög dregið úr svikum og bætt skilvirkni. Eignastýring getur orðið aðgengilegri og gegnsærri fyrir fjárfesta á öllum stigum. Með samþykkt frumvarpsins skapast tækifæri til að taka þátt í nýsköpun á þessu sviði. Það er auðvitað það sem við erum að tala um hérna með þessu frumvarpi. Dreifð færsluskrártækni er auðvitað notuð nú þegar víða og um hana gildir ýmiss konar löggjöf en hér erum við að tala sérstaklega um fjármálageirann. Það sem við erum að gera með því að samþykkja þessi lög er að gefa okkur tækifæri til að taka þátt í nýsköpun á því sviði án þess að fórna öryggi og stöðugleika.

Helstu gallarnir varðandi rafmyntir, t.d. þegar þær komu fyrst á sjónarsviðið, vörðuðu stöðugleika. Einmitt það er verið að leysa með þessari tækni að mörgu leyti. Við Íslendingar komum dálítið seint að borðinu þegar kemur að því að innleiða lög tengd þessari tækni eins og við eigum svo sem vanda til að gera varðandi ýmislegt og því ber að fagna þessu. Ég ætla að taka undir með kollega mínum, hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni, sem lagði til í ræðu sinni hér áðan að við horfðum í þessum efnum til Eistlands. Það kannski vita það ekkert öll að Eistland er frumkvöðull að mörgu leyti þegar kemur að þessu m.a. og þar hefur þingið nýtt það fyrirbæri eða hugtak sem er notað í þessu frumvarpi sem er tilraunalög eins konar. Þingið þar notar þau sem hluta af stefnu sinni til að styðja við nýsköpun bara yfir höfuð. En tilraunalög eins og hefur svo sem komið fram hérna í þessari umræðu eru lagaákvæði sem eru í gildi til bráðabirgða til að prófa hugmyndir og nálgun í raunveruleikanum áður en endanleg ákvörðun er tekin um hvort verði að föstum lögum. Ég ætla að játa það hér að ég sé svo sem ekki nákvæmlega hvernig þessi tilraunalög hafa aðra þýðingu í okkar stjórnskipun eða okkar lagakerfi en lög gera almennt og má kannski líkja þessu við það sem við köllum bráðabirgðalög og bráðabirgðaákvæði í lögum sem hafa tiltekinn afmarkaðan gildistíma, sem er kannski það sem einkennir þessa tegund laga.

Eins og mörg hafa velt upp hér í þessari umræðu þá velti ég akkúrat fyrir mér einu en það er að nú er þetta frumvarp liður í hinum svokallaða stafræna fjármálapakka sem er ætlað að stuðla að því að umgjörð fjármálamarkaða í Evrópu mæti nútímaþörfum og er ætlað að stuðla að efldri samkeppni og nýsköpun, auk þess auðvitað sem hugað er að, þetta þarf allt að gera með hugann við fjárfestavernd og vernd hagsmuna þeirra, net- og upplýsingaöryggi ásamt fjármálastöðugleika sem er lykilatriði í allri þessari umræðu. Þetta frumvarp er því að einhverju leyti hluti af sókn Íslands í að hér verði vel búið að nýsköpun og að löggjöfin sé ekki óþarfahindrun fyrir sköpunargáfu og nýsköpunarvilja frumkvöðla og fyrirtækja. En það sem má einmitt kannski spyrja sig, og ég ætla að taka undir það sem hefur komið fram hérna í máli fleiri en eins þingmanns, hvort það vanti ekki í frumvarpið eða í þetta allt saman einhverja sýn og hvort það vanti ekki áætlanir um að meta áhrif að nokkrum árum liðnum, áhrifum á nýsköpun.

Í 14. gr. reglugerðarinnar sem við erum hér að innleiða með þessari tilvísunaraðferð, sem ég veit að hv. þm. Eyjólfur Ármannsson er sérdeilis hrifinn af, er kveðið á um endurmat og útgáfu skýrslu um það endurmat af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fyrir mars 2026 og, ef við á, um gerð tillagna um að framlengja skipulagið til þriggja ára ef tilefni þykir til. Þannig er gengið út frá möguleika á sex ára reynslutíma af þessu skipulagi. Það er sem sagt gert ráð fyrir þessari endurmatsskýrslu af hálfu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og kannski rétt að við skoðum með hvaða hætti er rétt að skoða ávinning af frumvarpinu á Íslandi. Við vitum öll að það hefur komið fram gagnrýni á nýsköpunarstefnu íslenskra stjórnvalda og kannski sérstaklega skort á eftirliti með nýsköpunarstyrkjum eins og hefur komið fram í umræðunni og skattafsláttum vegna rannsókna og þróunar. Slíkt er auðvitað af hinu góða, það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að bjóða upp á veglegt og gott styrkjakerfi og skattafslættir eru mjög góð leið til að ýta undir rannsóknir og þróun og nýsköpun hvers konar. En ekki síst í ljósi þess og kannski í ljósi reynslunnar á fleiri sviðum þá myndi ég telja, og tek undir það sem hér hefur verið sagt varðandi það, að kannski sé tilefni til þess að skoða eftir á árangurinn af málum af þessu tagi og kannski þyrftum við akkúrat að hafa skýrari reglur um skráningu og um allt ferlið og annað, að það séu allar upplýsingar til um það hvernig þetta fer fram til þess að geta metið hvernig það reynist og hvað við þurfum að læra og hvernig við þurfum að gera hlutina e.t.v. öðruvísi í framtíðinni. Það er auðvitað þannig að við setjum á fót eitthvert kerfi og við getum kannski ekkert endilega gengið út frá því og treyst því að það muni virka nákvæmlega eins og það var hugsað. Við getum ekki séð fyrir öll tilvik og allar aðstæður sem geta komið upp fyrr en á reynir. Þannig virkar einfaldlega mannlegt samfélag. Því er gríðarlega mikilvægt að við metum árangurinn til þess að geta slípað kerfin til, geta sniðið af vankanta og til þess að geta betrumbætt.

Það sem skiptir líka máli hér er að tilgangur og markmið nýsköpunarstyrkja, skattafsláttar og alls sem í rauninni er gert til að ýta undir nýsköpun, er að stuðla að henni á sanngjarnan hátt. Þegar verið er að verja fjármunum úr sameiginlegum sjóðum okkar í þágu nýsköpunar — sem ég ítreka aftur að er auðvitað gríðarlega mikilvægt, ég held við séum öll sammála um það, ég þekki ekki til neinnar andstöðu alla vega hér á þinginu og veit svo sem ekki hvar hún ætti að liggja, andstaða við þennan fjárhagsstuðning við nýsköpun — þá þarf að vera á hreinu að þessum fjármunum sé varið í þágu markmiða og tilgangs þessara úrræða.