154. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[22:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar með breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum. Þetta er á þskj. 1718, mál 348. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á raforkulögum með það að markmiði að styrkja raforkuöryggi almennings og smærri fyrirtækja og tryggja þeim forgang komi til skömmtunar vegna óviðráðanlegra atvika. Einnig er mælt fyrir um söfnun og miðlun upplýsinga varðandi raforkuöryggi á heildsölumarkaði sem og viðmið fyrir raforkuöryggi.

Við meðferð málsins fyrir nefndinni var rætt að frumvarpið væri eitt skref af mörgum sem lúta að endurskoðun ráðuneyti orkumála á regluverki er varðar orkumál. Því er ætlað að tryggja betur raforkuöryggi notenda sem teljast ekki til stórnotenda og mæla fyrir um forgangsröðun komi til þess að grípa þurfi til skömmtunar. Unnið er á vegum ráðuneytisins að því að endurskoða allt regluverk raforkumarkaðarins og stuðla með því að auknu orkuöryggi þjóðarinnar. Þetta er margþætt langtímaverkefni og er stefnt að því að leggja fram fleiri frumvörp á komandi löggjafarþingum og raunar hafa einhverjir þeirra þegar verið birt, annaðhvort í samráðsgátt eða hér á þingi, en næst ekki að afgreiðast hér vegna tíma.

Markmið raforkulaga er að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Í þessu skyni skal skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum raforku, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna, eins og segir í 1. mgr. 1. gr. laganna. Meiri hlutinn undirstrikar að raforkuöryggi og tryggt raforkuframboð eru grundvallarþættir í þjóðaröryggi Íslands og nauðsynleg forsenda fjölbreyttrar atvinnustarfsemi og jákvæðrar byggðaþróunar. Að lágmarka líkur á því að raforkuskortur komi upp er því mikilvægur hluti af almennri stefnu stjórnvalda í orkumálum.

Á síðustu árum hefur nýting virkjana farið jafnt og þétt vaxandi. Eftirspurn hefur aukist mun hraðar en framboð raforku. Svigrúmið er því stöðugt minna til að bregðast við ef áföll verða í vinnslu- og flutningskerfi raforku eða ef framboð minnkar óvænt. Þannig hafa skapast veikleikar er varða framleiðsluöryggi og nægjanlegt raforkuframboð. Augljóst er að ekki er hagkvæmt að byggja upp raforkukerfi sem tryggir að engar líkur séu á raforkuskorti. Vega þarf og meta þessa þætti og skilgreina ásættanleg mörk orkuöryggis. Markmið þessa frumvarps er m.a. að tryggja yfirsýn yfir stöðu á raforkumarkaði út frá skilgreindum viðmiðum. Þá verði í reglugerð skilgreind ásættanleg öryggismörk.

Við vinnu þessa frumvarps kom berlega í ljós hve ógegnsær íslenskur raforkumarkaður er. Skortur á upplýsingum og misvísandi upplýsingar geta því leitt til þess að teknar verði rangar ákvarðanir þegar og ef það kemur að því að nauðsynlegt er talið að skammta raforku. Óskilvirkni raforkumarkaðarins eykur enn frekar þann vanda sem vinnslufyrirtæki, flutnings- og dreififyrirtæki, notendur og stjórnvöld standa frammi fyrir þegar raforkuöryggi er ógnað.

Í umfjöllun nefndarinnar kom fram hjá gestum nokkrum að mögulega hefði verið hægt að komast hjá þeim aðstæðum sem sköpuðust á liðnum vetri ef til væri virkur markaður með raforku. Meðan unnið er að skýrari löggjöf er ljóst að auka þarf ssveigjanleika til viðbragða á markaði svo að hægt sé að bregðast við orkuskorti án þess að stjórnvöld telji sig tilneydd að grípa inn í. Það mætti m.a. gera með því að gera stórnotendum kleift að selja orku aftur inn á kerfið til kerfisstjóra, þ.e. Landsnets, en slík heimild er ekki til staðar í dag í raforkulögum.

Í 9. gr. raforkulaga er kveðið á um skyldur flutningsfyrirtækisins. Þar segir í 4. mgr. að það beri ábyrgð á öruggri stýringu raforkukerfisins og skuli tryggja öryggi og gæði við raforkuafhendingu og er talið í fimm töluliðum hvað felst m.a. í slíkri kerfisstjórn. Í 1. tölulið er kveðið á um skyldu flutningsfyrirtækisins til að stilla saman raforkuvinnslu og raforkuþörf svo að hægt sé að mæta frávikum milli umsaminna kaupa og raforkunotkunar, sem og að gera samninga við vinnslufyrirtæki í þessu sambandi. Flutningsfyrirtækinu er aðeins heimilt að gera samninga við framleiðendur raforku samkvæmt ákvæðinu. Svo er nánar kveðið á um kerfisstjórn í raforkukerfinu í reglugerð.

Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að 1. tölulið 4. mgr. 9. gr. raforkulaga verði breytt á þann veg að vísað verði til markaðsaðila í stað vinnslufyrirtækja. Með lögfestingu þessara breytinga er greitt fyrir mögulegri þátttöku stórnotenda í jöfnunarorkumarkaði flutningsfyrirtækisins, þ.e. Landsnets. Með jöfnunarorku er átt við þá raforku sem kerfisstjóri tryggir að sé til reiðu til að halda jafnvægi milli raforkunotkunar og raforkutaps annars vegar og raforkuvinnslu hins vegar. Það er hægt að binda vonir við að framangreind breyting, nái hún fram að ganga, dragi úr þörf fyrir skömmtun raforku enda er verið að auka sveigjanleika flutningsfyrirtækisins, þ.e. Landsnets, með víðtækari heimild til samninga um kaup á raforku.

Með 2. og 3. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 9. mgr. 9. gr. og 7. mgr. 16. gr. raforkulaga, þar sem kveðið verði nánar á um viðmið þegar grípa þarf til skömmtunar raforku, annars vegar frá flutningsfyrirtækinu til dreifiveitna og notenda og hins vegar frá dreifiveitum til notenda. Þar skuli miða við notendur sem kaupa raforku til heimilisnota, mikilvæga samfélagsinnviði og fyrirtæki með færri en 50 starfsmenn og ársveltu eða efnahagsreikning sem er ekki yfir 1,5 milljörðum kr. og hafa ekki samið sérstaklega um skerðanlega notkun.

Það er miklum vandkvæðum bundið að framkvæma lögin með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu og því er talið nauðsynlegt að gera þar breytingar. Flutningsfyrirtækið, sem við vitum öll að er Landsnet, getur eingöngu skammtað magn til viðskiptavina sinna sem eru stórnotendur og dreifiveitur en ekki til almennra notenda. Framangreind skilyrði geta því ekki nýst sem viðmið við skömmtun í starfsemi Landsnets þurfi að koma til skömmtunar á raforku sé hún á forræði viðkomandi dreifiveitna.

Með hliðsjón af þessu leggur meiri hlutinn til að ákvæðinu verði breytt á þann veg að fellt verði út viðmið sem snýr að skömmtun til almennra notenda, enda sé það verkefni dreifiveitna að koma raforku til þeirra. Er ég hér að tala um 2. gr. frumvarpsins. Forgangs til skömmtunar raforku njóti því dreifiveitur og aðilar sem eru skilgreindir sem mikilvægir samfélagslegir innviðir.

Það er kveðið á um starfsemi og skyldur dreifiveitu í 16. gr. raforkulaga. Með 3. gr. frumvarpsins er lögð til sambærileg breyting og í 2. gr. frumvarpsins um viðmið flutningsfyrirtækisins til skömmtunar raforku til dreifiveitna og notenda. Í 23. gr. reglugerðar nr. 1040/2005, um framkvæmd raforkulaga, með síðari breytingum, er ákvæði um skömmtun dreifiveitna þar sem líta skal til sambærilegra sjónarmiða og þegar kemur að framangreindu reglugerðarákvæði um skömmtun flutningsfyrirtækisins. Rétt er að benda á að enn eru í gildi leiðbeiningar Orkustofnunar, sem nú er Raforkueftirlitið, um skömmtun raforku dreifiveitna, frá 1. október 2012. Þar segir að reglunum sé ætlað að tryggja að þegar grípa þarf til skömmtunar á raforku sé hún framkvæmd á þann hátt að sú raforka sem er til taks sé sem best nýtt að teknu tilliti til almannahagsmuna. Jafnframt segir að erfitt sé að setja nákvæmlega sömu kröfu á allar dreifiveitur þar sem þær séu afar ólíkar hvað varðar stærð dreifiveitusvæðis, landfræðilegar aðstæður og magn dreifðrar raforku.

Við meðferð málsins kom fram að þegar kemur að heimilum og smærri fyrirtækjum væri skömmtun á hendi dreifiveitna, eins og ég hef sagt hér áður. Sú dreifing byggist á skömmtun flutningsfyrirtækisins, þ.e. hvort skömmtunar sé þörf hjá einni eða fleiri dreifiveitum. Þau viðmið sem lögð eru til með 3. gr. frumvarpsins séu ekki framkvæmanleg miðað við núverandi aðstæður en hins vegar sé mögulegt að skipta notendum í flokka innan dreifikerfisins.

Meiri hlutinn leggur til að forgangs við skömmtun njóti mikilvægir samfélagsinnviðir, heimili og smærri fyrirtæki sem teljast ekki til stórnotenda. Við setningu reglugerða á grundvelli 2. og 3. gr. frumvarpsins verði skýrar kveðið á um tiltekin viðmið um skerðingar og skömmtun raforku sem er nú þegar að finna í reglugerðum og reglum sem settar hafa verið á grundvelli laganna. Haft verði samráð við flutningsfyrirtæki og dreifiveitur og tekið mið af staðháttum dreifiveitna og magni dreifðrar raforku.

Meiri hlutinn telur rétt að í reglugerð verði skilgreindir þeir notendur flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna sem teljast mikilvægir samfélagsinnviðir, m.a. út frá sjónarmiðum um almannaöryggi og þjóðaröryggi. Eðlilegt sé að við þá vinnu sé gætt að samræmi við önnur lög og reglur sem sett eru um mikilvæga samfélagsinnviði, með vísan til almannaheilla og mikilvægrar samfélagslegrar starfsemi.

Meiri hlutinn leggur til að við 3. gr. frumvarpsins bætist grein sem leggur þá skyldu á Raforkueftirlitið að halda opinbera skrá yfir þá notendur raforku sem skilgreindir eru sem mikilvægir samfélagsinnviðir og skal það auglýst í Stjórnartíðindum, að fenginni staðfestingu ráðherra. Þessa skrá skal uppfæra eftir því sem tilefni er til og a.m.k. á tveggja ára fresti.

Hv. þm. Eva Dögg Davíðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapalaga. Undir álitið rita hv. þingmenn, sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson, Eva Dögg Davíðsdóttir, Helgi Héðinsson og Ingibjörg Isaksen.