154. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[23:48]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Þarna erum við kannski komin að þeim punkti sem ég kom inn á í ræðu minni, að við getum ekki talað um þetta eins og að eini skurðpunkturinn sem skipti máli sé skurðpunktur framboðs og eftirspurnar og þar myndist verð af því að þetta er öðruvísi. Þetta er orka. Þetta er eitt af fjöreggjunum okkar og í okkar dreifbýla landi, harðbýla eins og fólk á norðurhlutanum þekkir svo sannarlega núna, þá skiptir þetta líka svo miklu máli ef við ætlum að tryggja búsetu um allt land. Þar þarf pólitíkin auðvitað að koma inn. Það er þetta sem gerir þetta mál bæði flókið á ákveðinn hátt en fyrst og fremst svo gríðarlega mikilvægt. Ég ætla svo sannarlega ekki að nota síðustu sekúndurnar mína hérna til að gera lítið úr því að við ræðum alltaf og alls staðar um náttúruauðlindir, vernd þeirra og hvernig við umgöngumst þær (Forseti hringir.) þegar við tölum um orku. En þetta þarf líka að ræða. Þetta má ekki falla í skuggann.