154. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[23:51]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir andsvarið og ég veit að við gætum rætt þessi mál löngum stundum, kannski samt frekar nær miðjum degi en miðnætti næst. Ég ætla samt að segja að ég get tekið undir margt sem hv. þingmaður nefndi en ég er nú ekki á sama máli um að hér eigum við mikið af umframorku. Ég er sammála því að það er mikil synd og vont að við búum við þá staðreynd að dreifikerfið okkur sé byggt upp á þann hátt að það skilar ekki allri orkunni á þá staði sem þarf að skila og það þarf að laga. Við missum út orku, það er orkutap í gangi líka. En það er líka staðreynd að það er gríðarleg eftirspurn eftir orkunni okkar og hún er ekki öll komin til af því að það spretta hér upp nýjar atvinnugreinar og allir vilja græna orku af því að það er svo eftirsóknarvert. Það er bara þannig að við erum að fara í orkuskipti, okkur fjölgar, það er kallað eftir meiri orku næstum því hvar sem er. Það er jákvætt að það hefur á undanförnum árum tekist að semja upp á nýtt við stórnotendur um hærra verð. En það þýðir þá líka að það er orðið minna bil þannig að þetta er orðið nær einum markaði, allir þessir notendur, sama hversu stórir þeir eru. Það skapar ákveðnar áskoranir. Og af því að hv. þingmaður spyr um hver beri ábyrgðina þá held ég að við höfum sofið á verðinum. Við höfum gert það og þá er ég ekki bara að meina sofið á verðinum varðandi það að það kom svakaleg umframorkueftirspurn, við bara sváfum á verðinum varðandi það hvernig við ættum að bregðast við. Kerfið okkar er þungt í vöfum og það hjálpar ekki til að við erum (Forseti hringir.) á áttunda ári með stjórnvöld sem í besta falli halda óbreyttu ástandi af því að þau eru ósammála og toga í sitthvora áttina. Það er staðan sem við þurfum að búa við.