154. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[23:54]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en ég get ekki tekið undir það að hér sé ekki framleidd umframorka miðað við það sem er að koma á markaðinn vegna þess að fyrir fimm árum síðan þá fékk ég þær upplýsingar sem varaformaður atvinnuveganefndar að umframorkan væri um 30% sem þeir kæmu ekki á markaðinn og núna, með viðbættum orkuverum og öðru slíku, er verið að tala um að þetta sé í kringum 25%. Það er fjórðungur, við erum að framleiða fjórðung meira af raforku heldur en dreifikerfið okkar ber og við erum ekki að gera neitt í að laga þetta dreifikerfi og koma því þannig í gagnið að við getum nýtt orkuna okkar. Þetta finnst mér svo sorglegt að það er eiginlega sárara en tárum taki. Heimili landsins eru ekki að nýta nema innan við 5% af framleiddri orku, öll heimili landsins okkar, þannig að ég er að segja að þessari ríkisstjórn hefði verið í lófa lagið fyrir langa löngu að taka utan um þörfina á dreifingunni og hrinda henni í framkvæmd. (Forseti hringir.) Getum við ekki verið sammála um það?