154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

regluverk almannatrygginga.

[10:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta hér upp. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að það er vissulega óþægilegt fyrir fólk með takmarkaðar tekjur að fá bréf um það að viðkomandi fái svo og svo minna á næstu mánuðum til að jafnræði sé á milli þeirra tekna sem viðkomandi fær og þeirra greiðslna sem viðkomandi á rétt á samkvæmt kerfinu á hverjum tíma. Það er alveg hægt að ætlast til þess af þeim kerfum sem við erum með að þau nái betri og betri árangri en ekki verri og verri, eins og mér heyrðist hv. þingmaður vera að vísa til. Það er sjálfsagt mál að skoða það.

Ég gæti hins vegar ímyndað mér, án þess að ég hafi sérstakar upplýsingar um það hér og nú, en bara af því sem ég hef heyrt í gegnum tíðina, að það sé að hluta til vegna þess að við erum oft að bæta umtalsvert í, það eru meiri sveiflur. Bótakerfin eru samt reguleruð en oft og tíðum gera auknar tekjur þetta að verkum. Þrátt fyrir að fólk reyni af bestu samvisku að spá fyrir um tekjur sínar reynast þær aðrar þegar upp er staðið og þar af leiðandi fá menn hærri greiðslur áætlaðar. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er áskorun í því að reyna að gera betur upp á að fólk sé nær þeim raunveruleika sem það býr við þegar það gefur upp væntar tekjur sínar og um leið nær áætlun um væntar greiðslur sem það á rétt á.

Það er áskorun sem ég held að kerfið þurfi að skoða. Ég skal taka ábendingu hv. þingmanns um að taka það til skoðunar.