154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar.

[10:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ef hv. þingmaður af einhverri sanngirni skoðaði raunverulega þær hagtölur sem hann síðan velur alltaf nokkrar úr og fer með hér upp í pontu, eigum við að segja allt frá árinu 2013 þegar Framsóknarflokkurinn settist í ríkisstjórn eftir setu t.d. Samfylkingarinnar í ríkisstjórn — ég hafði haldið því fram á þeim tíma að ef sú stefna sem Framsóknarflokkurinn og samstarfsflokkurinn Sjálfstæðisflokkurinn hefði komist til valda einu eða tveimur árum fyrr hefðum við getað snúið við erfiðri stöðu eftir efnahagshrunið, sem sú ríkisstjórn gerði býsna vel að vinna bug á, og þá hefðum við getað byrjað einu eða tveimur árum fyrr. Ef hv. þingmaður skoðar hagtölurnar er augljóst hvað gerist við það að tekin er stefnumörkun og stefnubreyting frá árinu 2013. Ef hv. þingmaður skoðar síðan kaupmáttaraukningu og alla þróun efnahagslífsins allt frá þeim tíma þangað til við erum komin í heimsfaraldur Covid þá er það býsna góður tími í sögu Íslands. Það er gríðarlega góð saga að segja um stöðugleika, lága verðbólgu, sífellt lækkandi vexti, sífellt vaxandi hagvöxt og vaxandi kaupmátt í landinu, kaupmátt sem við höfum ekki séð í mjög langan tíma án þess að það hafi kostað gríðarlega há verðbólguskot. Síðan höfum við fengið heimsfaraldur Covid. Ofan í kaupið fengum við stríðsástand í Evrópu sem hefur fyrst haft þau áhrif hér að verðbólga rauk upp og síðan er það vandamál okkar, sem er íslenskt vandamál, að ná henni niður. Því verkefni erum við í núna. Og hvort var hv. þingmaður að tala um að hér væri samdráttur eða þensla í landinu, því að það er akkúrat vandinn sem Seðlabankinn og ríkisfjármálin eru að glíma við. Það er nefnilega hvoru tveggja. Það er vandasamt að finna það jafnvægi. Við erum að reyna það í fjármálaáætluninni og mér sýnist að það séu býsna góð teikn á lofti um að það takist. Ef það tekst þá eru horfur hér til næstu ára gríðarlega góðar og um það eru allir sammála, þar á meðal Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.